Í sumar fékk Andríki Gallup til að kanna hug fólks til tveggja umdeildustu mála ársins, að minnsta kosti á stjórnmálavettvangi. Annars vegar afstöðu til fyrsta Icesave-frumvarps fjármálaráðherra og hins vegar inngöngu Íslands í Evrópusambandið og hvort þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fara fram um þá ákvörðun að senda inngöngubeiðni til Brussel. Skemmst er frá því að segja að niðurstöðurnar urðu í öllum tilvikum á skjön við stefnu ríkisstjórnarinnar, ekki síst um Icesave-frumvarpið en 19,6% svarenda reyndust hlynnt því en 67,9% andvíg.
Þessar niðurstöður vöktu skiljanlega athygli, bæði á Íslandi og erlendis, en einn fjölmiðill haggaðist þó ekki heldur þagði eins og hann lifandi gat. Svokölluð „fréttastofa“ Ríkisútvarpsins þagði eins og steinn yfir Gallup-könnunum um heitustu deilumál sumarsins og það var ekki fyrr en Andríki hafði auglýst niðurstöður Icesave-könnunarinnar í dagblöðum sem „fréttastofan“ gaf sig. Evrópusambandskönnununum hefur hún þó ekki sagt frá enn.
Þó var „fréttastofunni“ til gamans sagt frá niðurstöðunum með fréttatilkynningu. En í Efstaleitinu þóttu niðurstöðurnar bara ekki koma áheyrendum við. Ekkert af þessu kom Vefþjóðviljanum sérstaklega á óvart, en blaðinu þótti „fréttaflutningur“ Ríkisútvarpsins þó það sem á endanum væri einna fróðlegast við málin öll.
En stundum vaknar „fréttastofan“ þó til lífsins og sýnir hvað hún getur, þegar raunveruleg fréttaefni rekur á rauðu fjörurnar.
Um helgina urðu þau tíðindi að stjórn sjálfs Femínistafélags Íslands krafðist þess að stjórn Knattspyrnusambands Íslands segði af sér þar sem einn starfsmaður félagsins hefði fyrir mörgum árum eytt kvöldstund erlendis á erótískum skemmtistað. Þetta stóra mál var að sjálfsögðu fyrirferðarmikið í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins um helgina. Textavarpið sló Femínistafélaginu upp sem miklum tíðindum. Þegar helgin var úti tók Kastljósið við, með gagnrýnislausu viðtali við fulltrúa Femínistafélagsins og stríðsglæparéttarhöldum yfir formanni Knattspyrnusambandsins.
Og það skemmtilegasta við allt þetta er að þeir á „fréttastofunni“ sjá ekkert athugavert við neitt í sinni framgöngu. Þeir telja sig í alvöru vera fína fagmenn.
Kannski ætti Andríki að senda þeim pistil hvers dags sem ályktun félagsins.