Laugardagur 7. nóvember 2009

311. tbl. 13. árg.
Aðeins hérna í sambandi við sko ríkisskoðunina, og ég er alveg sammála þessum fjölhyggjupælingum sko, en það gæti verið ríkisskoðun í sjálfu sér, eða þjóðarsálarskoðun eða sáttmáli, að við viljum fjölbreytni, að við viljum segja: Meirihlutinn á ekki að þvinga minnihlutann undir sig, kjarninn í lýðræðinu á einmitt að vera möguleiki hinnar mjóróma raddar til að láta til sín taka, andstætt því sem að þetta hefur kannski þróast á Íslandi þar sem að hefur verið svona mikið framkvæmdavaldsmiðun, þar sem að framkvæmdavaldið hefur í raun og veru farið sínu fram og minnihlutinn í þinginu til að mynda hefur ekki haft rödd, við erum með allt annan praxís í þessum efnum en til að mynda á Norðurlöndum þar sem er mikil hefð fyrir minnihlutastjórnum og þar sem jafnvel er það þannig aðstoðarmenn ráðherra eru úr gagnstæðum flokkum til þess að tryggja það að það sé svona ákveðin fjölbreytni innanbúðar.
– Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, í Vinstrilokunum á Rás 1, laugardaginn 7. nóvember 2009.

J

Ævintýrið um ráðherrana þrjá
Fyrsti stóð að nýjum Icesave-samningum þar sem splunkunýjum fyrirvörum alþingis var varpað fyrir róða. Annar beitir ráðherravaldi til þess að stöðva stóriðjuhugmyndir víða um land. Sá þriðji hefur miklar áhyggjur af ofríki framkvæmdavaldsins. Það er hann sem fer í útvarpsþættina.

á, er þetta ekki fallega sagt hjá henni Svandísi? Hún er, eins og Vefþjóðviljinn bjóst alltaf við, einlægur baráttumaður fyrir því að fjölbreytt viðhorf ráði, að framkvæmdavaldið fari ekki bara sínu fram, að minnihlutinn á alþingi komi að ákvörðunum og hún mælir með að helstu trúnaðarmenn ráðherra komi úr öðrum flokkum.

Svandís Svavarsdóttir situr í ríkisstjórn þar sem framkvæmdavaldið fer fram með mesta skeytingarleysi sem sögur fara af hér á landi. Dæmi um það, er eitt afdrifaríkasta mál lýðveldissögunnar, Icesave-málið. Þar eru núverandi íslensk stjórnvöld harðákveðin í að skuldbinda ríkissjóð til að greiða hundruð ef ekki þúsund milljarða króna til erlendra ríkja, án nokkurrar skyldu, vegna skulda einkafyrirtækis við erlenda viðskiptavini sína. Þar hefur framkvæmdavaldið gengið fram af mikilli hörku og öll þess framganga bendir til þess að því þyki löggjafarvaldið einskis virði.

Fyrst stóð til að heimta það af alþingi í sumar að það veitti ríkisábyrgð á Icesave-samninginn óséðan, og færi þannig að dæmi valdamestu ráðherra, sem sjálfur Ögmundur Jónasson hefur fullyrt að hafi samþykkt upphaflegan samning án þess að sjá hann. Þegar menn hurfu frá því var lagst á þingmenn að klára málið hið fyrsta og jafnan hótað stjórnarslitum þegar einhver vildi gæta hagsmuna Íslands. Loks lét þingið undan en þó ekki að öllu leyti og samþykkti lög um að ríkisábyrgð væri heimil að ákveðnum skilyrðum uppfylltum – en annars ekki. Kom glöggt fram í máli þingmanna að um lágmarksskilyrði væri að ræða.

Lögin höfðu varla fyrr verið sett en framkvæmdavaldið efndi til nýrra samninga við bresk og hollensk stjórnvöld. Og ekki um fyrirvarana sem alþingi hafði leitt í lög nokkrum dögum áður. Nei um allt aðra og mun verri skilmála fyrir Ísland en alþingi hafði ákveðið. Forsætisráðherra neitaði svo vikum saman að upplýsa hvað fælist í samningunum enda vildi hún ekki fara með neitt í þingið sem hún væri ekki örugg um að fá samþykkt.

Í þessari ríkisstjórn situr Svandís Svavarsdóttir hæstánægð milli þess sem hún mætir í útvarpsviðtöl og heldur þar langar ræður um ofríki framkvæmdavaldsins, sem hún er óskaplega mikið á móti.

Jú og hún gerir reyndar fleira. Hún beitir ráðherravaldi sínu óspart til að leggja stein í götu þeirra sem vilja standa að stóriðju í landinu. En hún er jafnmikið á móti ofríki framkvæmdavaldsins, þrátt fyrir það.

Enda var engin athugasemd gerð við ræðu hennar í þættinum.