Þ eir halda áfram eins hratt og þeir lifandi geta, til að vera komnir sem lengst þegar þingmenn og borgarfulltrúar rakna úr rotinu. Í dag var „reisugilli“ í tónlistarhöllinni, sem enn er hamast við að byggja án þess að fjárlög eða fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar séu spurð álits.
Við bankaþrotið í fyrra hefði tónlistarhúss-sturlunin stöðvast í flestum venjulegum löndum. En á Íslandi ákváðu ráðherra og borgarstjóri bara að halda áfram, þó talið væri að um 14 milljarða króna kostaði að klára húsið, og svo er bara unnið og unnið og reynt að komast sem lengst áður en fjárlög og fjárhagsáætlun komast á dagskrá, til að beita „þið-standið-frammi-fyrir-orðnum-hlut“-rökunum.
En það er ekki of seint að hætta við ruglið. Með því mætti spara milljarða króna af opinberu fé.
Á niðurskurðartímum, þegar verið er að segja upp ræstingakonum og riturum hvar sem til þeirra næst, þá mega menningarvitarnir ekki heyra á það minnst að nokkuð verði slegið af í smíði glæsihallarinnar. Þrjúhundruð Kínverja skal flytja inn til að setja upp fínasta gler í heimi, utan á höllina.
Framundan eru prófkjör vegna borgarstjórnarkosninga. Ætli einhverjir frambjóðendur þori að brjótast undan oki menningarvitanna og lofa að taka afstöðu með skattgreiðendum gegn skrílnum, og stöðva ósköpin? Slíkir frambjóðendur ættu ekki að þurfa að kvíða kjördegi.