Fimmtudagur 5. nóvember 2009

309. tbl. 13. árg.

S jaldan launar kálfurinn ofeldið. Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Gylfi Magnússon og fleiri ráðherrar og þingmenn stjórnarliðsins hafa verið Bretum og Hollendingum mikil stoð í svonefndri Icesave-deilu.

Icesave-deilan ætti raunar ekki að vera nefnd deila því málið snýst um furðukröfu breskra og hollenskra stjórnvalda þess efnis að íslenskir skattgreiðendur taki á sig hallann af mislukkuðu sambandi einkafyrirtækis og viðskiptavina þess. Málið kæmi íslenskum stjórnvöldum ekki við fyrr en mál væri höfðað þess efnis að ríkissjóður Íslands bæri ábyrgð á skuldbindingum sjálfseignarstofnunarinnar tryggingarsjóðs innistæðueigenda. Þá þyrfti ríkissjóður að ráða sér lögmann, helst Helga Áss Grétarsson sem myndi salla lögmenn bresku krúnunnar niður með rökunum „undirritaður er ekki sammála“ svo „ekki verður nánar fjallað um það hér“. Skák og mát.

En þrátt fyrir eindreginn stuðning Jóhönnu við kröfur Breta og Hollendinga að undanförnu láta þeir ekki svo lítið að svara bréfum sem hún sendir starfsbræðrum sínum. Svo lítilfjörlegt er íslenska stjórnarráðið orðið að það finnst ekki embættismaður í Whitehall sem hefur tíma til að svara bréfi frá íslenska forsætisráðherranum.