Þ að er að vissu leyti leiðinlegt að reglur um höfundarétt banna heildar-endurbirtingu blaðagreinar án leyfis eigenda bæði höfundar- og birtingarréttar. Ástæða væri nefnilega til að birta í heild grein þeirra Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors og Lárusar L. Blöndals hæstaréttarlögmanns, úr Morgunblaðinu um helgina. En þá verður að láta sér nægja að vitna í greinina að hluta og benda mönnum á hvar finna má hana í heild.
Grein þeirra félaga nefnist Hvað stendur eftir? og fjallar um þá spurningu hver verði örlög þeirra fyrirvara, sem alþingi setti í sumar við ríkisábyrgð á Icesave-reikningunum, ef nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar um málið verður samþykkt. Í ljós kemur að þeirra bíða aum örlög og starf alþingis í sumar við að reyna að takmarka tjónið af samfelldri undanlátssemi ríkisstjórnarinnar verður að engu.
Þeir Stefán Már og Lárus byrja á því að rifja upp mikilvægustu atriðin í þeim fyrirvörum sem alþingi þó setti í sumar við ríkisábyrgð á Icesave-skuldunum og er upprifjun þeirra í aðalatriðum á þessa leið:
1. Gildistími ábyrgðarinnar var tímabundin til 5. júní 2024. Eftir það féll hún niður. 2. Sett voru efnahagsleg viðmið sem takmörkuðu ábyrgð ríkisins við ákveðið hámark af vexti vergrar landsframleiðslu á hverju ári. Þetta átti að tryggja að greiðslur yrðu aldrei hærri en íslenska ríkið þyldi. 3. Gerður var fyrirvari um að Ísland hefði ekki fallið frá rétti sínum til að fá úr því skorið hvort aðildarríki EES-samningsins bæru ábyrgð gagnvart innstæðueigendum við fall banka. Ákvæðið miðaði að því að tryggja að fengist nú niðurstaða hjá þar til bærum aðila, sem gæti verið íslenskur dómstóll, að slík skylda væri ekki fyrir hendi, gæti íslenska ríkið losnað úr ábyrgðinni samkvæmt því. 4. Þá miðaðist ábyrgðin við að farið yrði að íslenskum lögum við uppgjör og úthlutun eigna úr Landsbankanum. Ábyrgðin væri takmörkuð við að látið yrði reyna á það hvort kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta gengju ekki samkvæmt íslenskum lögum framar öðrum hlutum krafna vegna sömu innstæðu við úthlutun úr búi Landsbankans. Yrði niðurstaðan tryggingarsjóðnum í hag skyldi ábyrgð íslenska ríkisins lækka að sama skapi. |
Þeir Stefán Már og Lárus segja að hugsunin að baki fyrirvörunum hafi fyrst og fremst lotið að því að tryggja réttarstöðu Íslands. Nú sé hins vegar komið fram nýtt frumvarp sem ætlað sé að gera verulegar breytingar á áður gerðum fyrirvörum. „Sú grundvallarbreyting hefur orðið samkvæmt frumvarpinu að snúið er til baka til fyrra horfs, þ.e. ábyrgð ríkisins er nú aftur orðin hluti af lánasamningnum, dómsvald til að túlka samningin fellur undir breska dómstóla og ábyrgð íslenska ríkisins er aftur orðin skilyrðislaus.“ Þeir Stefán Már og Lárus fara svo yfir örlög mikilvægustu fyrirvaranna, ef nýja stjórnarfrumvarpið verður samþykkt:
1. Tímabinding ábyrgðarinnar er felld út. Ríkisábyrgðin er sem sagt ótímabundin. Margar kynslóðir Íslendinga gætu því orðið ábyrgar fyrir Icesave-skuldbindingunum. 2. Efnahagslegu viðmiðunum er breytt verulega. Þannig skal ávallt greiða vexti óháð því hvort hagvaxtaraukning verður á Íslandi eða ekki. Fjárhæð vaxtanna hleypur á mörgum tugum milljarða kr. á ári a.m.k. fyrstu árin. Hafi meirihluti fjárlaganefndar og þeirra ráðgjafar reiknað rétt þegar þessi fyrirvari um greiðsluhámark var settur inn í lögin um ríkisábyrgðina, er ljóst að þessar fjárhæðir eru líklega umfram það sem þjóðarbúið getur borið. Það þýðir að þjóðin getur væntanlega ekki staðið undir þessari ríkisábyrgð. 3. Íslenska ríkið getur ekki tryggt að ríkisábyrgðin falli niður jafnvel þó þar til bær úrskurðaraðili kæmist að þeirri niðurstöðu að ríkið bæri ekki ábyrgð á innistæðum. Samkvæmt frumvarpinu skal ríkisábyrgð vera bundin þeim fyrirvara að viðræður fari fram milli Íslands og viðsemjenda þess um áhrif slíkrar niðurstöðu á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins. Bretar og Hollendingar eru auðvitað ekki bundnir af þessum ákvæðum og samkvæmt lánasamningunum er ábyrgð íslenska ríkisins skilyrðislaus eins og áður sagði. Íslenska ríkið á það því alfarið undir breskum og hollenskum stjórnvöldum hvert framhald málsins verður. Niðurstaða dómstóla breytir því engu um Icesave-ábyrgðina verði þetta frumvarp samþykkt nema Hollendingar og Bretar samþykki það. 4. Samkvæmt frumvarpinu er ekki lengur gert ráð fyrir að ríkisábyrgðin takmarkist við að úthlutun og uppgjör á eignum Landsbankans fari fram samkvæmt íslenskum lögum eins og þau verða skýrð af dómstólum landsins. Látið er duga að setja inn í viðaukasamninginn við Breta að þeim sé kunnugt um að Tryggingarsjóður innstæðueigenda kunni að leita úrskurðar um hvort hans kröfur gangi framar öðrum kröfum vegna sömu innlána. Eins og áður segir eru skuldbindingar íslenska ríkisins hins vegar skilyrðislausar samkvæmt lánasamningnum og við túlkun hans gilda bresk lög. Af þessum sökum verður ekki séð að neitt lögfræðilegt hald sé í þessu ákvæði viðaukasamningsins við Breta að þessu leyti og fyrirvarinn því orðinn marklaus gagnvart þeim. |
Þeir Stefán Már og Lárus segja að niðurstaða þessa samanburðar sé afdráttarlaus: „Þeir fyrirvarar sem mestu skiptu til að takmarka ríkisábyrgðina vegna Icesave-samninganna eru nánast að engu orðnir út frá lögfræðilegu sjónarhorni. Skuldbindingar íslenska ríkisins eru á ný orðnar óljósar og ófyrirsjáanlegar bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd. Vera kann að Alþingi samþykki umrætt frumvarp engu að síður og þá út frá öðrum brýnum sjónarmiðum en lögfræðilegum. Um það verður ekki rætt hér. Hins vegar er ljóst að fyrirvararnir sem settir voru fyrir ríkisábyrgðinni í haust geta ekki verið réttlæting fyrir því að samþykkja ríkisábyrgðina samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi.“
Hér eru afar brýn og vel rökstudd viðvörunarorð sem alþingismenn verða að íhuga, áður en þeir taka upp á því að skuldbinda íslenska ríkið að ósekju til að taka á sig hundraða milljarða króna skuldir sem engin lögfræðileg rök hafa enn verið færð fyrir að það beri ábyrgð á. Lárus Blöndal er þrautreyndur hæstaréttarlögmaður en Stefán Már hefur árum saman verið einn helsti sérfræðingur Íslands í Evrópurétti og kennari í honum við lagadeild Háskólans. En grein þeirra á auðvitað ekki að meta eftir höfundunum heldur þeim röksemdum sem þeir færa fram. Þau eru skýr. Eru þingmenn vinstrigrænna reiðubúnir að svara þeim með rökum, eða verður hlýðnin við Össur Skarphéðinsson og aðra krata öllu yfirsterkari? Það kemur í ljós á næstunni.