Laugardagur 31. október 2009

304. tbl. 13. árg.

V ilhjálmur Bjarnason fjárfestir tapaði í vikunni máli sem hann höfðaði gegn stjórnarmönnum í Glitni sem létu bankann kaupa hlutabréf af fráfarandi forstjóra á verði yfir markaðsverði á þeim tíma.

Vilhjálmur hefur látið ýmislegt flakka um fjármálakerfið á undanförnum misserum. Hinn 20. október á síðasta ári, skömmu eftir bankahrunið, sagði hann meðal annars í þættinum Kompási á Stöð 2: „Íslenskt fjármálakerfi var fórnarlamb siðblindu, siðvillu og geðvillu.“

Vefþjóðviljinn hefur áður velt því fyrir sér hvers vegna Vilhjálmur treysti svo rotnu kerfi fyrir fjármunum sínum en það er önnur saga. Það er sömuleiðis útúrdúr að nefna það hér að Vilhjálmur sagði í ársbyrjun 2007 að bankarnir ættu ekki að vera að vara húsbyggjendur við myntkörfulánum. Vilhjálmur sagði lán í erlendri mynt væru besti kosturinn – nema menn væru „asnar“.

Nú er vart hægt að gera ráð fyrir öðru en að Vilhjálmur hafi fyrst lagt til atlögu fyrir dómsstólum gegn þeim sem hann taldi hafa sýnt mestu siðvilluna. Og með það tapaði hann fyrir hæstarétti. Hæstaréttardómararnir fimm sem dæmdu í málinu voru einróma en einn héraðsdómari hafði áður dæmt Vilhjálmi í vil.

Þegar málshöfðun Vilhjálms með mikilvægustu sakirnar sem hann hefur borið á menn að undanförnu endar með þessum hætti vaknar að minnsta kosti ein spurning. Hvað með allt hitt gasprið og ávirðingarnar sem hann hefur látið frá sér fara að undanförnu?