B jarni Benediktsson virðist hafa átt erindi á Norðurlandaráðsþing. Hann mun hafa talað tæpitungulaust um framkomu svokallaðra vinaríkja Íslands, sem gengið hafa á bak orða sinna um lán til Íslands og af þjónkun við stærri ríki bundið þau skilyrðum, sem aldrei hafði verið samið um.
Nú er Vefþjóðviljinn auðvitað ekki sérstakur áhugamaður um erlendar lántökur ríkissjóðs og myndi ráðleggja stjórnvöldum að leggja meiri áherslu á sparnað en lántökur. En Ísland hafði gert lánasamninga við þessi nágrannaríki sín, samninga sem þau hafa síðan ekki efnt. Það hafa þessi svonefndu vinaríki Íslands gert, til þess að hjálpa öðrum ríkjum að kúga Ísland í alls óskyldu máli, vitandi það að núverandi íslensk stjórnvöld munu hvorki bera hönd fyrir höfuð landinu né tala máli þess nokkurs staðar þar sem það gæti gert gagn.
Þannig er vinátta þessara grannríkja við Ísland, þegar íslensk stjórnvöld telja sér liggja á. Þá verða nágrannalöndin sjálf að smáríkjum og þjónkunin við stærri ríki verður yfirsterkari samningum við svokallað vinaríki sitt.
Og hvernig bregðast íslensk yfirvöld við. Þau fara prúð og háttvís á Norðurlandaráðsþing eins og ekkert hafi í skorist. Bjarni Benediktsson virðist einn hafa gert sér grein fyrir því hvaða erindi íslenskur stjórnmálamaður gat eitt átt á Norðurlandaráðsþing.
Og rétt eins og þegar formaður og þingmaður Framsóknarflokksins fóru til Noregs til að reyna að vinna landinu það sem þeir töldu geta orðið því til gagns, þá var hér stjórnarandstöðuleiðtogi að gera það sem ríkisstjórn í venjulegu landi myndi gera sjálf.
Auðvitað áttu íslenskir stjórnmálamenn að leyfa stórmennunum í Norðurlandaráði að funda einum. Hugsanlega hefði átt að senda einn mann til að flytja ræðu Bjarna Benediktssonar og kveðja svo.
E itt af því sem Evrópusambandssinnar hafa reynt að bera fyrir sig, þegar bent er á hvílíkt áhrifaleysi smáríki eins og Ísland byggi við í Evrópusambandinu, er að Ísland yrði nú alls ekki eitt á báti. Það nyti auðvitað nágrannaríkja sinna, hinna fornu vinaþjóða. Eins og sést vel á Icesave-kúguninni, þá er sú hollusta öll á annan veginn, þegar smáríki á í höggi við stærri ríki.
EE kki þarf að taka fram, að það sem hér hefur verið sagt um framgöngu nágrannaríkjanna við Ísland á ekki við framgöngu Færeyinga, sem Íslendingar mega lengi muna, hvort sem þeir eru nú hlynntir lántökum ríkisins eða ekki.
F rá því var skýrt í dag að húsið Bergþórshvoll hefði brunnið og grunur væri um íkveikju.