294. tbl. 13. árg.
M argt má um Ögmund Jónasson segja, en hann er ekki sérdrægur. Má þar hafa til marks, að hann hefur ekki þegið laun sem formaður BSRB, þau ár sem liðin eru frá því hann settist á þing árið 1995. Þá hefur hann lengi haft yfir sér öllu meiri heilindayfirbragð en margir aðrir þingmenn og oft verið sterklega grunaður um að vera trúr sannfæringu sinni og eigin málflutningi, fremur en að fylgja þeirri flokkslínu sem gengur gegn henni, eftir því sem hentar hverju sinni. Í því ljósi var eðlilegt að hann segði sig úr þeirri ríkisstjórn sem vann að því hörðum höndum að semja sig frá og útvatna verulega þá fyrirvara sem löggjafinn þó setti við ríkisábyrgð á innlánaskuldum Landsbankans erlendis.
En nú þegar við blasir að fyrirvarar alþingis eru að öllu verulegu leyti að engu orðnir, þá er eins og skyndilega sé úr Ögmundi allur máttur og hann viti varla með hvoru sér beri að standa; sannfæringu sinni, málflutngi sínum og hagsmunum Íslands – eða þá fyrirmælum frá forystu Samfylkingarinnar, sem Steingrímur J. Sigfússon ber samviskulega til þingmanna sinna.
Ef að Ögmundur Jónasson lætur núna, eftir allt sem á undan er gengið, stjórnarandstöðuna eina um að standa vörð um hagsmuni Íslands, þá er það jafn ómakleg brotlending og ef hann myndi ljúka kveðjuræðu sinni á þingi BSRB á stuttri þögn, áður en hann styndi upp: „Eh já, og svo skuldiði mér víst laun.“
|