F réttamenn fengu stutta áheyrn hjá Jóhönnu Sigurðardóttur eftir ríkisstjórnarfund í gær. Ekki sagði Jóhanna mikið, en þó endurtók hún það sem hún hefur margsagt, að hún myndi ekki leggja aðra lausn á Icesave-málum fyrir alþingi en hún vissi að hún fengi þar samþykkta. Ekki þótti fréttamönnum það kalla á sérstakar spurningar.
Tvennt virðist blasa við:
Í fyrsta lagi hefur Jóhanna Sigurðardóttir sjálf litla sem enga skoðun á því hvað megi felast í „lausn Icesave-málsins“. Í sumar lýsti hún stuðningi við Icesave-samninginn óséðan. Svo reyndi hún að þjösna honum í gegnum þingið án nokkurra fyrirvara. Framan af mun ríkisstjórnin meira að segja hafa ætlað að fá ríkisábyrgð samþykkta án þess að samningurinn yrði gerður opinber. Núna snýst málið hjá Jóhönnu ekki um hvaða grundvallaratriði hún sjái í málinu, því hún sér fá, heldur eingöngu þá spurningu hversu mjög hún getur enn víkkað kokið á svokölluðum samstarfsmönnum sínum í vinstrigrænum.
Í öðru lagi blasir við að Jóhanna vill ekki að alþingi komi nálægt málinu, sem slíkt. Þar sem breyta þarf nýsettum lögum til að ríkisábyrgð eins og Bretar, Hollendingar og íslenska stjórnarráðið vilja, fáist samþykkt, verður málið að koma í frumvarpsformi fyrir alþingi. En Jóhanna hefur marglýst því yfir, án þess að svonefndir fréttamenn hlusti, að hún ætlar ekki að hleypa þinginu að málinu fyrr en búið sé að að ákveða niðurstöðuna endanlega utan þings. Nú má það ekki gerast aftur að alþingismenn breyti snilldarverkunum sem koma úr stjórnarráðinu. Það er það sem sú margsagða setning, að Jóhanna muni ekki leggja annað fyrir þingið en hún viti að verði samþykkt, þýðir.
En fréttamenn, að ekki sé talað um alla álitsgjafana og „sérfræðingana“ sem í áraraðir höfðu miklar áhyggjur af því að þingið væri „orðið afgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins“, segja ekki orð. Enginn þeirra, sem sífellt töluðu um að „efla alþingi“ spyr núna hvers vegna Jóhanna leyfi ekki alþingi og þingnefndum að fjalla um málið, í stað þess að halda því fyrir aftan bak í stjórnarráðinu á meðan blogglúðasveitinni er sigað á Ögmund Jónasson.