Föstudagur 16. október 2009

289. tbl. 13. árg.

S teingrímur J. Sigfússon greindi frá því í dag, í einu af ótal viðtölum sínum um lítið, að hann hefði í dag rætt við fjármálaráðherra Hollands, Woulter Bos, um næstu skref í Icesave-málinu, sem svokallað alþingi Íslendinga afgreiddi að vísu að sínu leyti fyrir mörgum vikum. Auðvitað sagði Steingrímur ekkert sérstakt um samtalið við hollenska ráðherrann, enda segja ráðherrar landsmönnum ekkert sem máli skiptir um Icesave-málið, og fréttamenn láta sér það vel líka. Menn geta hins vegar ímyndað sér hvernig þeir létu ef önnur ríkisstjórn sæti við völd og hygðist ákveða slík mál í bakherbergjum.

Eitt af því sem gaman hefði verið ef Steingrímur J. Sigfússon hefði rætt við fjármálaráðherra Hollands, er sú lögfræðilega skoðun að í raun sé innistæðukerfinu ekki ætlað að taka á kerfishruni eins og varð á Íslandi í fyrra. Ef sú skoðun er rétt, þá er blasir endanlega við að engin skylda hvílir á neinu ríki við slíkt hrun að sjá til þess að tryggingainnstæðusjóður landsins geti tryggt innstæður í öllum hrundum bönkum.

Það hefði verið gaman ef ráðherrarnir hefðu rætt þetta mikilvæga atriði. Eina hættan við það hefði verið ef Steingrími J. Sigfússyni, þeim málafylgjumanni, hefði tekist að vinna hollenska fjármálaráðherrann á sitt band í viðræðunum.

Í þessu máli vill nefnilega svo til, að annar ráðherrann hefur lýst því yfir opinberlega að innstæðutryggingarkerfið eigi ekki við þegar um kerfishrun er að ræða. Og sá ráðherra er auðvitað ekki íslenski ráðherrann, enda er þessi skilningur málstað Íslands mjög í hag.

Woulter Bos, fjármálaráðherra Hollands, lýsti því yfir í mars á þessu ári að evrópska innstæðutryggingakerfinu væri ekki ætlað að takast á við kerfishrun. Á Íslandi sagði Viðskiptablaðið frá þessu og Vefþjóðviljinn gerði það daginn eftir. Fyrstur vakti athygli á þessu Sigurður Kári Kristjánsson.

Vill einhver velta því fyrir sér hvort fréttastofa Ríkisútvarpsins, svo dæmi sé tekið, hafi talið þá staðreynd eiga erindi við Íslendinga, að fjármálaráðherra sjálfs Hollands, sem nú gerir þungar kröfur á hendur Íslandi um að sjá til þess að innstæðutryggingasjóður geti borgað hundruð milljarða króna til erlendra ríkja, hafi fyrr á þessu ári lýst því yfir að kerfið hafi einmitt ekki verið ætlað til að taka á sig slíkar skyldur?

Þeir sem hafa allan sinn fróðleik um þjóðmál úr íslenska ríkisútvarpinu eða af blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar, sem ekki er allur munur á, munu líklega seint fræðast um fjölmörg mikilvæg atriði. En fá þeim mun nákvæmari spuna um margt annað.

En kannski spyr einhver fjölmiðill Steingrím J. Sigfússon hvort hann hafi einhvern tíma hermt þessi ummæli hollenska ráðherrans upp á hann.

Og svo mætti spyrja kurteislega: „Hvers vegna ekki?“