Fimmtudagur 15. október 2009

288. tbl. 13. árg.

F yrir nokkru gladdist Vefþjóðviljinn yfir fréttum sem sögðu að búið væri að „skjóta fyrsta Svíanum út í geiminn“. Þetta væri vitanlega aðeins fyrsta skref og mjór væri mikils vísir.

Í vikunni bárust þær fregnir að Svíþjóð væri horfin af lýðnetinu. Að vísu stóð það ekki nema í stundarfjórðung, en gott fyrsta skref engu að síður.

S tórvirkið Svartbók kommúnismans, sem fæst í Bóksölu Andríkis, er rúmlega 800 blaðsíður enda gríðarlega mikil saga þar á ferð. Hugsanlega eru ýmsir sem vart treysta sér til að lesa slíkt verk, þó ástæða væri til. Einn þolbesti Íslendingur samtímans, Gunnlaugur Júlíusson, hagfræðingur og afrekshlaupari, les nú bókina og hefur fjallað um hana á sinni heimasíðu. Þar skrifar hann á dögunum

Ég er að lesa Svartbók Kommúnismans þessar vikurnar. Þetta er gríðarleg bók upp á einar 800 bls, skrifuð af hóp franskra rithöfunda og sagnfræðinga fyrir ca 12 árum. Hannes Hólmsteinn þýddi verkið. Mér finnst svolítið athyglisvert að það er eins og bókin sé ekki til hérelendis, maður heyrir aldrei minnst á hana, það er ekki fjallað um þýðinguna í fjölmiðlum (alla vega ekki það ég hef séð) og að maður tali nú ekki um að hún hafi skapað einhverjar umræður um kommúnismann og söguna. Ekkert. Bókin er ekki til. Hún hefur ekki verið þýdd á íslensku og ekki gefin út. Það lítur alla vega út fyrir það eftir viðbrögðunum að dæma. Þetta er ákveðin aðferð sem hægt er að beita þegar eitthvað skal þagað í hel vegna þess að það hreyfir við óþægilegum málum. Það er í sjálfu sér ósköp einfalt að sópa óþægilegum hlutum undir teppið og láta eins og þeir séu ekki til. Ég er nú bara kominn aftur undir seinni heimsstyrjöld og mikið er eftir. Maður hafði staðið í þeirri meiningu að þjóðernishreinsanir nasistanna í Þýskalandi hefðu verið nokkuð einsdæmi í Evrópu á seinni tímum og einmitt þess vegna hefðu þær verið þrykkt svo djúpt í mannkynssöguna eins og raun ber vitni. Þetta er náttúrulega gríðarlegur misskiliningur og vanþekking. Stalín stóð fyrir gríðarlegum þjóðernishreinsunum á fjórða áratugnum svo Hitler var í sjálfu sér bara að feta í fótspor hans. Krím Tatarar, Tsjetenar, Kákasusbúar, Úkraníumenn, fólk af þýskum ættum sem bjó í Rússlandi, bændur, menntamenn og ég veit ekki hvaða hópar voru ekki rifnir upp og fluttir í gúlagið austur í Síberíu. Milljónir á milljónir ofan. Þeir fengu að taka með sér mat til mánaðar á hvern einstakling í lestarferðina austur en svo tók ferðin óvart tvo mánuði. Auðvitað hefur maður heyrt um Gúlagið en það er svo víðsfjarri því að það sé almennt sett í álíka hryllingsflokk í sögulegu samhengi eins og þrælkunar- og útrýmingarbúðir nasistanna. Milljónum saman var fólki haldið nauðugu í þrælabúðum út um allt í Sovétríkjunum. Þar dó það vitaskuld eins og flugur. Það er ekki nema von að Hitler hafi tekið þessa aðferðafræði upp af miklum þrótti þegar hann hafði séð hana notaða í Sovétríkjunum í áraraðir og enginn sagði neitt.

En ekki er allt búið enn. Gunnlaugur bætir því við síðar, að sér hafi verið bent á að ritdómur hafi birst um bókina í DV og um hana verið fjallað á Rás 2, þar sem sagnfræðingur nokkur hafi haldið því fram „að framfarir í heilbrigðiskerfi Sovétríkjanna hefðu verið það miklar að þær hefðu einar og sér allt að því réttlætt það að sovéska ógnarstjórnin lét drepa 85-100 milljónir manna”, svo notuð sé endursögn Gunnlaugs á viðtali við þýðanda bókarinnar, Hannes H. Gissurarson, og Árna Daníel Júlíusson sagnfræðing.

E kki þurfa allir að búa við þá þöggun sem Gunnlaugur segir um Svartbók kommúnismann. Gauti Kristmannson þýðandi skrifaði mikla skammargrein um Sjálfstæðisflokkinn í lesbók Morgunblaðsins síðastliðinn laugardag. Daginn eftir var hann að sjálfsögðu í Silfri Egils, og ræddi þar við Björgu Evu Erlendsdóttur, Jóhann Hauksson og Ólaf Arnarson. Síðar í sömu viku fjallaði Vefþjóðviljinn tvívegis um grein Gauta, svo ekki er hann þaggaður niður.