Föstudagur 9. október 2009

282. tbl. 13. árg.

E instaklega skemmtilegar fréttir bárust í morgun frá Noregi, og er þá ekki átt við ferð þeirra framsóknarmanna Sigmundar og Höskuldar, sem mega eiga að þeir virðast að minnsta kosti reyna að finna einhver úrræði á meðan ríkisstjórninni hugkvæmist helst að góla á eigin þingmenn. Nei, það var norska nóbelsnefndin sem gleður menn núna með hinni skemmtilegu útnefningu sjálfs Baracks Obama af Washington til friðarverðlauna Nóbels.

Nú mega flestir vita að Obama hefur enn sem komið er, hvað sem síðar verður, engum sérstökum árangri náð í friðarmálum. Enda ræður það sennilega ekki úrslitum hjá norsku spekingunum. Þeir eru hins vegar evrópskir vitar, hann er ekki Bush en þeir hötuðu Bush alveg frá því þeir heyrðu hann fyrst nefndan. Þeim finnst því flest við Obama vera frábært. Hann „vekur svo miklar vonir“, sem er staðhæfing sem undanfarið hefur heyrst af sömu sannfæringu og þegar umræðum er lokið með yfirlýsingunni „Jóhanna er svo heiðarleg“.

Og friðarverðlaun Obama, sem nú er helst reynt að skýra sem einhvers konar hvatningarverðlaun, verða skemmtilegur minnisvarði um evrópska vinstrimenn og hatrið sem þeir svo oft eru haldnir, mitt í öllu umburðarlyndinu sem þeim er svo tíðrætt um. Ástin til Obama er ekki síst sprottin af hatrinu á George W. Bush. Og það hatur var sjaldnast sprottið af embættisverkum hans. Það var komið fram löngu áður en hann náði kjöri sem forseti, þvert á eindreginn vilja evrópskra spekinga sem studdu auðvitað Gore.

Allt sem Bush tengdist var lagt út á versta veg. Öll viðbrögð hans voru sögð röng, ákvarðanir hans ýmist byggðar á heimsku hans, sem gengið var út frá eins og hverri annarri staðreynd, eða þá þaulhugsaðri kænsku hans, sem ekki var minni. Þeir sem gagnrýndu Bush, þeim var hampað og þeir taldir hinir mestu sérfræðingar; hinir voru málaliðar stórfyrirtækja, hagsmunahópa eða bara brjálæðingar. Og nýr forseti, demókrati og vissulega betri ræðuflytjari en forveri hans, sem þylur linnulítið slagorð um breytingar og von, hann er slík von að hann fær friðarverðlaun Nóbels, bara fyrir að vera til.

Á síðasta ári glotti Vefþjóðviljinn þegar tilkynnt var, í miðri kosningabaráttu Bandaríkjanna, að Obama væri ekki bara ný von heldur líka einn tíu best klæddu karlmanna heims, því auðvitað voru dökku jakkafötin hans miklu flottari en allra hinna. Það var þó bara létt skemmtun. Friðarverðlaun Nóbels til manns sem var að hefja sinn forsetaferil, það er alvöru skemmtun.

Svona geta vinstrimenn stundum glatt fólk.