Í gær birti Morgunblaðið opnuviðtal við Ögmund Jónasson, alþingismann og annan tveggja helstu leiðtoga vinstrigrænna, annars stjórnarflokksins. Og Ögmundur talaði tæpitungulaust. Hann segir að formenn stjórnarflokkanna hafi sett sér afarkosti, hann segir að samstarfsflokkurinn Samfylking hafi verið alltof leiðitöm erlendum öflum“, og hreinlega „afar höll undir frjálshyggju“, sem í huga Ögmundar og sennilega flestra félaga hans er líklega nálægt því að vera refsiverð meiðyrði, hann hafnar áherslu ríkisstjórnarinnar á að fá erlend lán til að styrkja gjaldeyrisforða ríkisins, og hann segir að sér hafi „sárnað mjög“ er Steingrímur J. Sigfússon reyndi að gera lítið úr gjörðum Ögmundar er Steingrímur gaf til kynna að afsögn Ögmundar úr ráðherrastóli væri ekki kominn til vegna Icesave-málsins, eins og Ögmundur sagði sjálfur, heldur vegna þess að Ögmundur legði ekki í niðurskurð í heilbrigðisráðuneytinu.
Allt eru þetta stórtíðindi. Það er þess vegna gaman að segja frá því að svokölluð „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ brást ekki vonum Vefþjóðviljans og hefur enn ekki frétt af opnuviðtalinu við Ögmund Jónasson.
Og ef einhver heldur að þar ráði bara kalt fréttamat Óðins Jónssonar og vopnabræðra hans, þá ættu menn að ímynda sér að aðstæður væru aðeins aðrar: Hugsi menn sér að fyrir nokkrum árum hefði Björn Bjarnason sagt af sér ráðherradómi. Hann hefði því næst farið í opnuviðtal og gagnrýnt ríkisstjórnina, helstu áherslumál hennar og samstarfsflokkinn harðlega. Þá hefði hann lýst því hversu sér hefði sárnað við formann Sjálfstæðisflokksins vegna óheilinda hans í sinn garð. Dettur einhverjum manni í hug að fréttastofa Ríkisútvarpsins myndi bara alls ekki minnast á viðtalið, fremur en það hefði aldrei verið birt?
En svo trygg er „fréttastofa“ Ríkisútvarpsins í varðstöðunni um stjórnarsamstarfið, að viðtalið við Ögmund Jónasson er þar ekki nefnt einu orði. Mikil sárindi Ögmundar út í Steingrím J. Sigfússon, nei það þykir Óðni og þeim á „fréttastofunni“ ekki áhugavert. Nú, segir Ögmundur líka að Samfylkingin, sem hann sat í ríkisstjórn með í síðustu viku, sé „leiðitöm erlendum öflum“, já já, og hvað með það? Það þykir okkur nú ekki fréttnæmt hér í Efstaleitinu. En við erum hérna með stórfrétt, sem við vorum raunar líka með í gær, það er blaðamaður á Morgunblaðinu reiður út í útgefanda blaðsins, við höldum áfram með það í dag og verðum með langa umfjöllun um það í kastljósinu í kvöld.
Allt er þetta í stíl við annað. „Fréttastofa“ Ríkisútvarpsins hefur enn ekki frétt af Gallup-könnun sem Andríki lét gera og sýndi mikla andstöðu við inngöngu Íslands í Evrópusambandið og þá leið sem ríkisstjórnin ákvað að fara, „fréttastofan“ frétti varla af harðri gagnrýni forystumanna vinstrigrænna á eigin formann vegna þess máls fyrr en það var afstaðið – frambjóðendur og forystumenn vinstrigrænna í kjördæmi Steingríms lýstu því yfir opinberlega að hann væri „ómerkingur“, en „fréttastofan“ minntist vart á það fyrr en málið var í höfn. „Fréttastofan“ frétti ekki af Gallup könnun sem sýndi yfirgnæfandi andstöðu við Icesave-frumvarp Steingríms J. Sigfússonar, fyrr en niðurstöðurnar voru birtar með opnuauglýsingu í Morgunblaðinu, og þannig mætti lengi telja málin þegar „fréttastofa“ Ríkisútvarpsins leggst fyrirvaralaust í vandlegan dvala.
Áróðursstöðin í Efstaleiti, sem kallar sjálfa sig stundum fréttastofu, telur sig sjálfsagt njóta „mikils trausts“ í landinu. Kannski gerir hún það. Fyrir rúmu ári gerði Fjármálaeftirlitið það líka.