Bíddu, af hverju segirðu óreiðumanna? |
– Fréttamaður Kastljóss grípur inn í, í viðtali 7. október 2008. |
S tundum er sagt að mynd segi meira en þúsund orð, að eitt atvik geti brugðið upp skýrari mynd en langar fræðigreinar. Ætli fréttamaður, sem æsist svo við að heyra stjórnendur útrásarbanka, sem kominn var í þrot, kallaða óreiðumenn, að hann grípur inn í hjá viðmælanda sem augljóslega var að tala um hluti sem skiptu máli, sé ekki alveg eins góð skyndimynd og hver önnur af fjölmiðlaumhverfinu á Íslandi fram á haustið 2008?
Eftir umrætt kastljósviðtal reyndu sumir íslenskir álitsgjafar og jafnvel sumir stjórnmálamenn hér á landi, að láta eins og þar hefði eitthvað verið sagt sem hefði valdið því að bresk yfirvöld beittu ákvæðum hryðjuverkalaga gegn Íslandi. Hafa þessir Íslendingar þar mikla sérstöðu, því á því ári sem síðan er liðið nefndu bresk yfirvöld þetta nefnt þetta viðtal aldrei einu orði, hvorki breskir ráðherrar sem ákvarðanirnar tóku, né breska þingnefndin sem rannsakaði viðbrögð Breta. Enda skipti viðtalið engu máli um framgöngu þeirra Browns og Darlings. Raunar hafði íslenska ríkisstjórnin sjálf áður sagt að íslenska ríkið hvorki gæti né myndi bjarga íslensku bönkunum með því að borga skuldir þeirra, og enginn gerði athugasemd við það sjálfsagða mál.
Síðast í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag reyndi Þórdís Arnljótsdóttir að tengja málin, kastljósviðtalið og hryðjuverkalögin, einhvern veginn saman. Enginn íslenskur álitsgjafi hefur enn beðist afsökunar á einu aukateknu orði sem sagt var um þetta ársgamla viðtal og eru íslenskir álitsgjafar þó einstakir áhugamenn um afsökunarbeiðnir.
Þetta eina mál er auðvitað lítið, eitt og sér. En hefur einhver íslenskur álitsgjafi beðist afsökunar á einni einustu missögn, einni einustu ónákvæmi, að ekki sé sagt ósannindum, einni einustu ósanngirni, eða nokkrum öðrum sköpuðum hlut í eigin fari, undanfarið stóryrða ár?
Það hlýtur þá að þýða að engum þeirra hafi orðið á undanfarið ár. Slíkir áhugamenn um afsakanir og opinberar iðranir hefðu nú ekki sparað sig við afsökunarbeiðnirnar.