S amkvæmt skoðanakönnunum nýtur Jóhanna Sigurðardóttir nú mun minna trausts en hún gerði í upphafi valdatíðar sinnar. Fyrir hálfu ári sögðust 60% svarenda vera ánægð með hennar störf, nú um 30%. Þessu hafa ýmsir lýst með því vinsæla orði, „hruni“.
Nú þurfa slík umskipti ekki nauðsynlega að vera neinn sérstakur dómur yfir Jóhönnu, heldur geta eingöngu verið til marks um að sprungur væru loksins komnar í skjaldborgina sem vinveittir fjölmiðlar, að ógleymdum álitsgjöfum sem árum saman hikuði ekki við að slá því jafnan fram að hún væri „svo heiðarleg“, hefðu slegið um hana. Auðvitað mælist minnkandi traust í garð allra þeirra sem sæta mikilli opinberri gagnrýni, hvort sem hún er sanngjörn eða ósanngjörn. En fall úr 60% í 30% á nokkrum mánuðum er auðvitað mjög óvenjulegt, og geta menn þá reynt að ímynda sér hver staðan væri ef fréttastofa Ríkisútvarpsins hefði á þessu tímabili frétt um nokkuð sem Jóhönnu hefði getað orðið til hnjóðs.
En það eru fleiri en fréttastofa Ríkisútvarpsins sem standa sig í stykkinu þegar formaður Samfylkingarinnar er annars vegar. Hinn indæli Evrópusambandssinni, Kolbrún Bergþórsdóttir, bregst ekki og á miðopnu sunnudagsblaðs Morgunblaðsins kemur hún til varnar. Kolbrún segir að í vetur hafi „þjóðin“ orðið „yfir sig montin af konunni hefði hefði afrekað að verða forsætisráðherra“ og allt hafi því verið „harla gott – um hríð.“ En svo versnaði í því. Þá ráku nefnilega „einhverjir“ upp „ramakvein“ yfir því að forsætisráðherrann væri „ekki nógu sólginn í sviðsljósið“ og hlypi „til dæmis ekki fagnandi í í fangið á hverjum einasta erlenda fréttamanni sem bankaði á dyr.“
Þetta telur Kolbrún vera mjög ómaklegt. Forsætisráðherrann sé „heiðarleg og vinnusöm, það vita allir“, en einhverjir telji það ekki nóg, því að við núverandi aðstæður þurfi forsætisráðherra sem „hefði unun af sviðsljósinu og talaði fimm tungumál.“ Þeir sem þessar kröfur geri séu hins vegar á villigötum. „Þjóðin ætti að þakka fyrir það að eiga forsætisráðherra sem telur ekki eftir sér að leggja hart að sér og vinnur af heiðarleika. Það er aldrei nóg til af heiðarlegu fólki og það er blessunarvert ef það leggur á sig að fara í pólitík. Og svo er það sérstakur aukabónus ef viðkomandi er laus við athyglissýki.“
Hér reynir Kolbrún að láta eins og þeir, sem telja Jóhönnu Sigurðardóttur ekki hafa neytt þeirra færa sem hún hafði, til að kynna og berjast fyrir málstað Íslendinga erlendis, séu einfaldlega að heimta athyglissjúkan forsætisráðherra sem hlypi „fagnandi í fangið á hverjum einasta erlenda fréttamanni sem bankaði á dyr“. Það er fráleit hugmynd. Hverjum dettur í hug að forsætisráðherra eigi að hlaupa í fangið á hverjum einasta manni sem vill fá viðtal? Auðvitað velja ráðherrar og hafna, og hafa engar viðtalsskyldur við einstaka fjölmiðlamenn.
En málið snýst um allt annað. Í vetur hafa verið þær aðstæður að erlendis hefur verið gefin upp mjög röng mynd af íslenskum málefnum. Bæði hafa það gert vissar erlendar ríkisstjórnir, af eiginhags-ástæðum, og erlendir blaðamenn sem hingað hafa komið og verið í einn til tvo daga hver, hafa fengið mjög bjagaða mynd af íslenskum málefnum frá innlendum álitsgjöfum. Hin ranga mynd af íslenskum málefnum erlendis kemur landinu svo mjög illa, á þeim tímum þegar tvö erlend ríki gera miklar og óréttmætar fjárkröfur á hendur því og annað þeirra beitti landið meira að segja sérstökum hryðjuverkalögum.
Við þær aðstæður gerist það að forsætisráðherra landsins neitar öllum erlendum fréttamönnum um viðtöl. Ekki bara um eina annasama helgi, eða viku, heldur í meira en hálft ár. Forsætisráðherrann neitar að fara utan og hitta erlenda leiðtoga, en meðal þeirra sem hún hefur afþakkað að hitta eru Barack Obama, Gordon Brown, Angela Merkel og Nicolas Sarkozy.
Þetta er mjög sérstakt. Enginn myndi gera athugasemd ef ráðherra kysi að nota túlk við slíkar viðræður. Það er hin samfellda neitun allra slíkra funda við áhrifamikla þjóðarleiðtoga, sem og samfelld neitun viðtala við helstu fjölmiðla heims, sem vekur furðu. Það þarf svo mikinn varnarvilja, að afgreiða undrun manna á þessu, sem kvartanir yfir því að forsætisráðherra „hlaupi ekki fagnandi í fangið á hverjum einasta erlenda fréttamanni sem bankaði á dyr“? Ætli Kolbrún Bergþórsdóttir geti nefnt einn einasta erlenda fréttamann sem hingað hefur komið, sem hefur ekki fengið stjórnarráðshurðina á nefið, þegar hann hefur bankað á dyr?