Laugardagur 3. október 2009

276. tbl. 13. árg.

Í gær birti Gallup niðurstöður könnunar á skoðunum fólks á störfum einstakra ráðherra. Niðurstaðan var sú að eini ráðherrann sem var nálægt því að ná helmingsfylgi var Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra. Hún hefur líka þá sérstöðu meðal ráðherra að vera úr hvorugum stjórnarflokknum.

H vernig var aftur frasinn sem fréttamenn og aðrir notuðu, allt fram að febrúar á þessu ári, til að útskýra hvers vegna þeir efuðust um flest sem frá stjórnvöldum kom, hvers vegna sífellt var leitað „fræðimanna“ til að halda því fram að stjórnvöld stæðu sig illa, hvers vegna sjónarmið stjórnarandstæðinga voru gjarnan yfirgnæfandi í umræðuþáttum, hvers vegna líklegir gagnrýnendur voru leitaðir uppi og hljóðneminn rekinn framan í þá við minnsta tækifæri, hvers vegna sjónarmið „mótmælenda“ voru jafnan flutt gagnrýnislaust og samkomur þeirra vandlega auglýstur í fréttatímum?

Jú var hann ekki eitthvað eins og „góður fjölmiðill er alltaf í stjórnarandstöðu“?

Einhvern veginn rámar Vefþjóðviljann í að hafa heyrt þann frasa oft og mörgum sinnum á liðnum árum. Að vísu virtist þessi regla lengi vel ekki gilda um meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur en það lagaðist eftir kosningarnar 2006 og sérstaklega eftir að Ólafur F. Magnússon varð borgarstjóri. Gagnvart ríkisstjórn var þessi frasi hins vegar jafnan hafður í hávegum.

Minna hefur heyrst af honum síðustu mánuði, einhverra hluta vegna. Um daginn leyfðu eigendur Morgunblaðsins sér að ráða ritstjóra að blaðinu. Svo gleymdur er þessi ágæti frasi, sem þó hljómaði ekki sjaldan síðustu árinn, að nú er því beinlínis haldið fram af hneykslun og reiði að undir stjórn nýrra ritstjóra verði Morgunblaðið hreinlega „gegn ríkisstjórninni“, sem virðist vera einhver ný tegund af helgispjöllum.