Þ egar óyggjandi frásagnir af hryllingnum í Sovétríkjunum fóru að berast mönnum á Vesturlöndum gripu margir gegnheilir kommúnistar til þess ráðs að kenna mönnunum sem hrintu kommúnismanum í framkvæmd um afleiðingar hans. Bara ef hefðu verið betur innréttaðir þar eystra þá hefði þetta allt saman gengið miklu betur.
Og þetta er ekki eina dæmið um að sanntrúaðir þybbist við að viðurkenna hnökra á draumaríkinu.
Flestir hafa viðurkennt að tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar var meingölluð. Hún gerði bönkum kleift að safna gríðarlegum skuldbindingum, hjá sparifjáreigendum sem töldu þær tryggðar, án þess að tryggingakerfin gætu tekist á við meiriháttar áföll. Enginn hefur í raun gefið út jafn afdráttarlausa yfirlýsingu þess efnis og Evrópusambandið sjálft þótt það kannist sjálfsagt ekki við það. Sambandið ætlar ekki aðeins að breyta innistæðutryggingunum heldur hefur það lagt á það mikla áherslu að ekki verði látið reyna á tilskipunina fyrir dómstólum. Þá gæti allt fjármálakerfi álfunnar farið í vaskinn. Einstök ríki sambandsins gáfu svo út sérstakar yfirlýsingar um að innistæður sparifjáreigenda væru tryggar því það blasti við öllum að innistæðutryggingakerfið var spilaborg.
En svo eru það þessir sem telja að Evrópusambandið sé óskeikult. Gegnheilu evrópukratarnir. Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra skrifaði til að mynda grein í Morgunblaðið á miðvikudaginn þar sem hann gerði því skóna að ef aðrir menn hefðu verið forsætisráðherra, seðlabankastjóri og varaformaður bankaráðs Landsbankans á síðasta ári þá sætu Íslendingar ekki uppi með Icesave-reikninginn. Jón Baldvin nafngreinir þessa menn samviskusamlega. Hann getur hins vegar hvorki formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins né bankamálaráðherrans.
Það skiptir hins vegar litlu máli hver var bankamálaráðherra þegar Icesvae innlánunum var safnað. Gallinn var í kerfinu. Bilunin var að einkafyrirtæki gæti stofnað til viðskiptasambands við fólk sem stóð í þeirri trú að skattgreiðendur væru skuldbundnir til að bæta allt tap af viðskiptunum.