Helgarsprokið 20. september 2009

263. tbl. 13. árg.

V art líður sá dagur að íslenskir fjölmiðlar birti ekki mynd af þunglyndislegum steinkumbalda í Washington D.C. Slotið hýsir skrifstofur Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Hvaða gluggi ætli sé á skrifstofunni sem sér um málefni Íslands? Eða er nýútskrifaður hagfræðingurinn sem reiknar framtíð Íslendinga út í fartölvunni sinni ekki kominn með skrifstofu með útsýn?

En þótt þessi ímyndaði hagfræðingur hafi jafnvel starfsreynslu á við íslenskan menntaskólanema og sé kominn með gluggaskrifstofu og vilji Íslendingum allt hið besta breytir það því ekki að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er sömu göllum búinn og aðrar ríkisstofnanir. Ríkisstofnanir vilja viðhalda sér. Þær sleppa því ógjarnan verkefnum. Á meðan Ísland er skjótstæðingur sjóðsins verður engum sagt upp í þeirri deild. Aðrir sérhagsmunir koma einnig við sögu þótt stofnunin sé vestan hafsins. Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands beita áhrifum sínum innan sjóðsins til að tryggja að Íslendingar verði hnepptir í Icesave-ánauðina og þær geti verið kotrosknar á heimavelli.

Svo er það þekkingarleysið. Vitneskju um vilja einstaklinganna verður ekki safnað saman á ríkisstofnun. Athafnir hennar verða því alltaf líkt og fálm í myrkri.

Auk þess að vera búinn sömu ókostum og venjulegar ríkisstofnanir hafa margar alþjóðastofnanir það að auki sér til lasts að það er enginn stjórnmálamaður ábyrgur í kosningum fyrir afglöpum þeirra. Komi í ljós að ráð AGS hér á landi hafi verið til tjóns hverjum á þá að refsa í næstu kosningum?

Sami vandi blasir auðvitað við gangi Ísland í Evrópusambandið. Framkvæmdastjórar Evrópusambandsins þurfa ekki að svara íslenskum kjósendum.

Segja má að þessi vandi hafi kristallast í tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar. Einhverjir embættismenn Evrópusambandsins sem sáu bara alls ekki fyrir sér að stórir bankar gætu orðið til í litlu landi, hvað þá að þeir færu allir í þrot samtímis, sömdu reglurnar og sendu aðildarríkjunum þær í pósti. Það hefur ekki heyrst mikið um ábyrgð þessara manna þrátt fyrir allt talið um að menn sæti ábyrgð.