Núverandi ríkisstjórn hefur náð að berja tvö stór mál í gegnum þingið. Hún hefur lagt drög að því að skipta landsmönnum í tvær hatrammar fylkingar með inngöngubeiðni í Evrópusambandið, þó flestum megi vera ljóst að slík innganga myndi ekki hjálpa landinu við núverandi aðstæður. Og hún lagði allt í sölurnar til að ganga að kröfum Breta og Hollendinga um hundraða milljarða króna ábyrgð Íslands á skuldum einkafyrirtækis, skuldum sem engin ríkisábyrgð var á.
Að öðru leyti kemur fátt frá ríkisstjórninni. Að vísu má segja að almennt sé betra að ríkisstjórnir geri meira en minna, en þeirri sem nú situr er einstaklega mislagðar hendur. Þær aðgerðir sem hún stendur fyrir, eru til ógagns. Það sem hún gæti gert til gagns, gerir hún of seint og of lítið af.
Fréttamenn reyna þó að hlaupa undir bagga með stjórninni og láta eins og hún standi fyrir blóðugum niðurskurði á öllum sviðum svo lengra verði alls ekki gengið. Þó dettur fréttamönnum ekki til hugar að setja hinn „gríðarlega niðurskurð“ í samhengi við útgjaldaaukninguna undanfarin ár. Meginhugmyndir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum felast hins vegar í því að auka álögur á þegnana. Bæði með beinum sköttum á laun þeirra en einnig með hækkun gjalda, sem ofan á annað hækka verðlag og þar með vísitölu og þar með skuldir þeirra sem tekið hafa verðtryggð lán.
Stjórnvöld tala eins og þau hafi miklar áhyggjur af atvinnuleysi. Samt virðist þeim ekki koma til hugar að létta undir með atvinnulífi og launafólki með lækkun skatta. Slík lækkun myndi skilja meira fé eftir í höndum fyrirtækja og launafólks. Launamaðurinn hefði þá meira milli handanna og ætti þar með meiri möguleika á að standa við skuldbindingar sínar, eða þá til að nota í verslun og viðskiptum, sem kæmi fyrirtækjum og þar með starfsfólki til góða.
Nei, vinstristjórnin eykur og eykur álögurnar, tekur meira og meira frá þegnunum til sín, en barmar sér feiknarlega yfir blóðugum niðurskurði sem hún telur sig standa í. Og fréttamenn setja hann aldrei í samhengi.