Helgarsprokið 6. september 2009

249. tbl. 13. árg.

E ins og menn vita stóð Morgunblaðið þétt við bak ríkisstjórnarinnar í baráttunni fyrir því að Icesave-ánauðin yrði lögð á íslenska ríkið. Hófst sú barátta blaðsins löngu áður en nokkrir fyrirvarar voru samþykktir og stóð allt til loka. Eftir samþykkt ríkisábyrgðarinnar hefur blaðið svo þakkað helstu mönnum með stórum og miklum viðtölum við Guðbjart Hannesson formann fjárlaganefndar og Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra. Virðist blaðinu vera þetta málefni næstum jafn hjartfólgið og Evrópusambandsinngangan sem er hefur verið þess hjartans mál í rúmlega ár. Í gær birti blaðið einmitt opnuviðtal við Þorstein Pálsson, fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins, sem hefur miklar áhyggjur af því að ekki náist nógu góð samstaða landsmanna um inngönguna, og telur nauðsynlegt að breikka pólitískt bakland umsóknarinnar, eins og hann orðar það.

Stuðningur Morgunblaðsins við að Icesave-ánauðin verði lögð á Ísland hefur verið fölskvalaus. Hefur þó blaðið verið jafn orðlaust og aðrir þegar kemur að því að sýna fram að íslenska ríkinu beri að taka á sig þessar skuldir einkafyrirtækis. Raunar má stundum af málflutningi blaðsins undanfarnar vikur ætla að blaðið skilji hreinlega ekki málið, og væri það svo sem ekki verulega úr stíl við annað.

Fyrrverandi bankastjóri Landsbankans sagði í fréttum nýlega að engin ríkisábyrgð hefði verið á Icesave-reikningum bankans. Morgunblaðið brást hið versta við. Reyndi blaðið strax að sýna fram á bankastjórinn færi þar vísvitandi með rangt mál. Ekki tókst það nú hjá blaðinu.

Í staksteinum sínum, þann 30. ágúst, vitnaði Morgunblaðið til viðtals við Sigurjón Þ. Árnason, sem hefði lýst þeirri skoðun að engin ríkisábyrgð hefði verið á Icesave-reikningunum. Segir blaðið svo að hafi þetta alla tíð verið skilningur Sigurjóns, hljóti „markaðsetning og málflutningur bankans að hafa verið gegn betri vitund bankastjórans.“

Og hvaða rök eru það nú sem Morgunblaðið færir fram þessu til stuðnings? Jú, blaðið vitnar í þrennt sem það telur sanna að bankastjórinn fari með rangt mál þegar hann segi enga ríkisábyrgð hafa verið á Icesave-reikningunum. En í raun er það svo að dæmin sem blaðið tekur, benda fremur til þess að það sjálft skilji alls ekki lykilatriði málsins.

Fyrsta dæmi blaðsins er þetta:

Bankinn hélt því fram í bréfi sem viðskiptavinum var sent í febrúar 2008, að innistæður þeirra væru tryggðar upp að 35.000 pundum, annars vegar af tryggingarsjóði á Íslandi, hins vegar af breska tryggingarsjóðnum. „Ef svo ólíklega færi að gera þyrfti kröfu á bankann er ólíklegt að nokkur seinkun yrði á endurgreiðslu í samanburði við innistæðutryggingarkerfi Bretlands,“ segir þar.

Annað dæmi blaðsins er þetta:

Á heimasíðu Icesave stóð skýrum stöfum: „Innistæður í Icesave eru tryggðar af Tryggingarsjóði innistæðueigenda á Íslandi.“ Og sömuleiðis: „Heildartryggingin sem báðir sjóðir veita þér er engu minni en þú nytir ef innistæðan þín væri eingöngu tryggð af breska sjóðnum.“

Þriðja og síðasta dæmið er þetta:

Loks skrifaði Sigurjón Árnason sjálfur undir bréf sem sent var hollenska seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu 23. september, þar sem fram kom að íslensk stjórnvöld hefðu ítrekað skuldbindingar sínar samkvæmt tilskipun EES um innstæðutryggingarnar. Þetta væri „mikið framfaraspor og ætti að fara langleiðina með að létta á áhyggjum varðandi innstæðutryggingarkerfið.“

Þetta voru dæmi Morgunblaðsins til að sýna fram á að Landsbankinn hefði alltaf álitið ríkisábyrgð vera á Icesave-reikningunum. En það sem blaðið virðist ekki skilja, er að tryggingarsjóður innstæðueigenda var ekki á ábyrgð ríkisins. Samkvæmt tilskipun þeirri sem hér skyldi gilda, bar að koma slíkum sjóði á laggirnar og inn í hann skyldu fjármálafyrirtæki greiða. Ríkinu bar ekki að greiða í hann og ekki að bæta í hann ef hann tæmdist. Ef að ætlunin hefði verið að ríkið ábyrgðist innstæður þá hefði ekki þurft neinn sjóð. Þá hefði einfaldlega verið kveðið á um að ríkið ábyrgðist innstæður upp að einhverju ákveðnu marki, og mætti leggja einhver ákveðin gjöld á fjármálafyrirtækin, meðan þau væru starfandi, í því skyni. Sérstakur og sjálfstæður sjóður, utan ríkiskerfsins, var búinn til, einfaldlega vegna þess að honum einum var ætlað að bæta tjón sem yrði af bankaþroti.

Skuldbindingar íslenska ríkisins voru að hér væri starfandi tryggingasjóður í samræmi við tilskipunina, en ekki að í hann kæmu hundruða milljarða króna ríkisframlög.Þegar Landsbankinn auglýsti að tryggingarsjóður innlána tryggði innlán upp að tilteknu hámarki, laug bankinn engu. Það var einfaldlega í samræmi við evrópskar reglur sem giltu í Bretlandi, Hollandi og hér. Engar reglur hafa kveðið á um að annar aðili, þjóðríkin sjálf, tryggi innlánin, enda hefur enginn talsmaður Icesave-ánauðarinnar getað bent á slíka reglu.

En þrátt fyrir að engin slík regla sé til, þá hafa þingmenn stjórnarflokkanna ákveðið að íslenska ríkið gangist í þá ábyrgð sem því var óskylt að gangast. Þeir hafa kannski allan sinn fróðleik um málið frá Steingrími J. Sigfússyni og Morgunblaðinu.