Laugardagur 5. september 2009

248. tbl. 13. árg.

Í kynningu á nýrri heimildarmynd um sviptingar síðasta hausts í íslenskum þjóðmálum er rætt við Geir H. Haarde þáverandi forsætisráðherra. Geir segir meðal annars: „Ríkisstjórnin var ekki með beinar upplýsingar um lánastarfsemi bankanna, þeir voru fífldjarfir og því fór sem fór“.

Ef til vill mætti túlka þessi orð Geirs á þann veg að hið opinbera hafi ekki haft neitt eftirlit af viti með bönkunum. Það er ekki rétt. Hið opinbera hafði mjög mikið eftirlit með þeim. Eftirlitsstofnanir ríkisins eiga hins vegar að heita „sjálfstæðar“ og „faglegar“. Það þýðir að starfsmenn þeirra eiga ekki að vera í sambandi við raunverulega yfirmenn sína, kjörna stjórnmálamenn.

Íslenska ríkið rak fjármálaeftirlit, viðskiptaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, efnahagsmálaráðuneyti, seðlabanka og samkeppnisstofnun. Fjárframlög til flestra þessara stofnana hafa verið aukin ár frá ári undanfarin ár eins og Vefþjóðviljinn hefur áður nefnt. Yfir viðskiptaráðuneytið, ráðuneyti bankamála, var settur sérstakur ráðherra, ungur, vinstri sinnaður og sprækur, 17 mánuðum fyrir hrun bankanna. Auk þess fjármagna íslenskir skattgreiðendur meðal annars neytendasamtök, samtök iðnarðarins, hagdeild ASÍ og hver veit hve margar viðskiptafræðideildir háskóla þar sem mönnum er meðal annars greitt fyrir að fylgjast með ástandi og horfum í íslenskum efnahagsmálum, sinna „rannsóknum“. Enginn þessara aðila varaði til að mynda við því opinberlega að með Icesave reikningunum væru ef til vill að hrannast upp skuldbindingar á ríkissjóð Íslands. Hvers vegna vakti enginn athygli á þessu? Ein skýringin kann auðvitað að vera sú að engum kom til hugar að það væri ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóði. En menn hefðu engu að síður mátt gera sér grein fyrir því að að sjóðurinn réði engan veginn við mögulegar skuldbindingar sínar.

Þessu til viðbótar voru fjármálayfirvöld annarra evrópulanda með nefið oní rekstri íslensku bankanna vegna starfsemi þeirra í viðkomandi löndum.  Allt þetta umfangsmikla og dýra opinbera eftirlit var í besta falli til einskis.

En vantaði þá ekki bara reglur um fjármálastarfsemina? Um fjármálastarfsemi á Íslandi gilda sömu lög og í flestum vestrænum ríkjum. Andríki sá sig knúið til að kynna þann mýgrút lagaboða með auglýsingum í blöðunum. Þessi lög eru svo gríðarlega mörg og víðtæk að annað eins hefur ekki þekkst um eina atvinnugrein.