F jölmiðlar eru teknir að segja fréttir af miklum niðurskurði í ríkiskerfinu. Stóru orðin um afleiðingarnar sjaldan spöruð. Eitt er þó sparað, á þessum sparnaðartímum: Hinn mikli niðurskurður er sjaldnast settur í samhengi við hina stórfelldu útgjaldaaukningu sem varð á síðustu árum. Enda er hætt við að mesti þunginn færi í fréttinni ef í ljós kæmi að sums staðar væri hinn blóðugi niðurskurður ekki meiri en svo að fjárveitingar yrðu þær sömu og þær voru 2006 eða 2007. Og var almennt neyðarástand í landinu þá? Þegar látið er nægja í fréttum að segja að nú eigi að skera þrjú, fimm eða sjö prósent hér og hvar en þó tíu prósent hjá lögreglunni af því að stjórnarflokkarnir hafa alltaf verið á móti lögreglunni og í landinu er enginn dómsmálaráðherra: þá er varla hálf sagan sögð þegar menn fá aldrei að vita hvernig fjárveitingar hafa þróast síðustu árin.
Hvers vegna er aldrei sagt frá stórfelldri útgjaldaaukningu ríkisins á nær öllum sviðum undanfarin ár? Þessi ár sem nú er reynt að segja fólki að hafi verið ein hörmungarsaga og hungursneyð.
H ún var fræðandi fyrir nútímamenn, frétt Ríkissjónvarpsins um lestarferðina sem farin var til að minnast þess að sjötíu ár voru síðan tæplega 700 gyðingabörnum var komið frá Tékkóslóvakíu með lest, áleiðis til Lundúna, eftir að Þjóðverjar hernámu landið. Breskur kaupsýslumaður, sem staddur var í Tékkóslóvakíu, hafði forgöngu um málið, safnaði börnunum saman, útvegaði fé til fararinnar og sá börnunum fyrir heimili á Englandi. Ekki er vafi á því að með þessu bjargaði hann mörgum þeirra, kannski flestum, frá bráðum bana. Og hvað var fræðandi fyrir nútímamenn í þessu? Eitt og annað auðvitað. En það sem var sérstaklega skemmtilegt var að þessi kaupsýslumaður tók á móti fólkinu við lok minningarferðarinnar nú, hundrað ára gamall. Aðeins eru nokkur ár frá því í ljós kom hvern þátt hann hafði átt í björgun barnanna, er kona hans fann skjöl um málið í dóti á heimili þeirra. Hann hafði einfaldlega unnið þetta verk, komið tæplega 700 gyðingabörnum úr hernumdu landi, flutt þau yfir Evrópu til Bretlands og fundið þeim heimili þar. Aldrei sagt frá því einu orði. Hvernig er málum háttað í dag? Eru fjölmiðlar ekki reglulega að segja frá því að hinn og þessi hafi fengið viðurkenningu hér og hvar erlendis, jákvæðan dóm í staðarblaði eða verðlaun í samkeppni? Hvernig ætli standi á þeirri þefvísi blaðamanna að frétta af allri þessari sigurgöngu? Ætli það geti nokkuð verið að menn hringi ákafir á fjölmiðla til að sýna heiðurspeninginn og hrósið sem þeir fengu? Hversu margir nútímamenn ætli gætu nú leikið eftir bæði afrek þessa breska kaupsýslumanns, að leggja sig í hættu við að bjarga barnaskara undan þýsku drápsvélinni og stilla sig svo áratugum saman um að segja frægðarsöguna.
Vegna bilunar í netþjóni birtust pistlar dagsins seint.