R íkisútvarpið sagði upplýsandi frétt í gærkvöldi. Svolítið upplýsandi um stjórnmálaástandið í landinu, en fyrst og fremst upplýsandi um stjórnmálaástandið á hinni öflugu pólitísku vél, fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Í gærkvöldi sagði fréttastofan nefnilega vandlega frá nýrri skoðanakönnun Gallup, sem gaf þá niðurstöðu að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna væri andvígur Icesave-frumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem nú er orðið að lögum. Nánar tiltekið kváðust 63% vera á móti, 24% með en 13% sögðust hvorki vera með né á móti.
Það er merkilegt og segir talsverða sögu, að fréttastofan geri um þetta sérstaka frétt, um leið og niðurstöður þessarar könnunar liggja fyrir.
En hvað er svona merkilegt og upplýsandi við það? Jú það er þetta:
Með þessari ágætu frétt viðurkennir fréttastofan það sem liggur í augum uppi, að ný Gallup-könnun um þetta afdrifaríka og umdeilda mál er mjög fréttnæm. Og það minnir mjög skýrt á annað: Þetta er nefnilega ekki fyrsta heldur önnur Gallup-könnunin um frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna. Eins og lesendur Vefþjóðviljans vita, þá lét Andríki Gallup kanna hug manna til málsins fyrr í sumar. Niðurstöðurnar voru birtar 5. ágúst og voru mjög á sömu lund og í þeirri könnun sem sagt var frá í gær, 67,9% andvíg, 19,6% hlynnt, 12,5% hvorki hlynnt né andvíg.
En, eins og lesendur Vefþjóðviljans vita líka, þá vildi hins vegar svo til að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafði nákvæmlega engan áhuga á þessari Gallup-könnun, þegar niðurstöður hennar lágu fyrir. Sama mátti raunar segja um aðra könnun, sem birt var degi fyrr og sýndi mikla andstöðu við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta þótti „fréttastofu Ríkisútvarpsins“ ekki eiga neitt erindi við almenning. Það var ekki fyrr en mörgum dögum síðar, þegar Andríki hafði tekið sig til og keypt opnuauglýsingu í Morgunblaðið og birt niðurstöðurnar þar, sem fréttastofan gaf sig og sagði frá málinu.
Þegar fyrri skoðanakönnunin lá fyrir, var ennþá deilt hart um málið á þingi. Forystumenn ríkisstjórnarinnar reyndu af öllum kröftum að snúa upp á hendur þingmanna sinna til að gangast undir kröfur Breta og Hollendinga. Það var við þær aðstæður sem „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ þagði og þagði um afgerandi niðurstöður nýrrar Gallup-könnunar um afstöðu landsmanna til sama máls.
En í gærkvöldi, þegar málinu er lokið, staðfestir fréttastofan, svo ekki verður um villst, að niðurstöður slíkra kannana eru fréttnæmar og eiga erindi við áhorfendur.
Sem gerir enn þyngri spurninguna um það hvers vegna svo eindregið hafi verið þagað fyrr í sumar.
Hvenær ætli komi að því að yfirmenn Ríkisútvarpsins þurfi að svara þeirri spurningu og fleirum?