Það hlýtur að vera skemmtileg tilhugsun fyrir þá þrjátíu og fjóra alþingismenn sem í gær ákváðu að íslenska ríkið gengist í ábyrgð vegna icesave-reikninga Landsbanka Íslands hf.
Sú frammistaða þingmannanna þrjátíu og fjögurra verður lengi í minnum höfð. Sama má segja um aðra þingmenn. Þeir sem í gær ákváðu að sitja hjá, þegar greidd væru atkvæði um það hvort íslenska ríkið bæri ábyrgð á hundruðum milljarða króna, sem nákvæmlega engin ríkisábyrgð var á, eru sérstök tilfelli, sem lengi mega skammast sín.
Það er auðvitað álitamál hvort hrósa eigi þeim þingmönnum sem greiddu atkvæði gegn ríkisábyrgðinni, svo augljós sem sú afstaða var auðvitað. En jú, miðað við alþingi og fjölmiðlaumhverfið, þá eiga þessir þingmenn líklega lof skilið. Þingflokkur Framsóknarflokksins stóð sig óvenjuvel og á allur hrós skilið. Sama má segja um þá tvo þingmenn sem enn tilheyra Borgarahreyfingunni ásamt einum sem genginn er úr henni og þá tvo þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem ekki fylgdu þeirri furðulegu línu að sitja hjá.
Líklega eiga þeir tveir þingmenn sérstakt hrós skilið, í ljósi þess hvernig félagar þeirra fóru með atkvæði sín, og því skal þeirra Árna Johnsen og Birgis Ármannssonar sérstaklega getið, en einnig er sjálfsagt að muna að formaður Framsóknarflokksins stóð sig oft afar vel, og þingmanna best, í umræðum um þetta mál, og komst oft að kjarna þess, ólíkur mörgum öðrum þingmönnum stjórnar og stjórnarandstöðu, að ekki sé talað um fréttamenn og álitsgjafa.
Fréttamenn og álitsgjafar eru sérstakur kapítiuli. Hér var á ferð óútkljáð mál, sem afgreitt mun rýra lífskjör Íslendinga, að óþörfu, í fjölda ára. Mál sem mun kosta þjóðarbúið hundruð milljarða. Og fréttamenn höfðu ekki áhuga á neinum efnisatriðum þess og raunar vart öðru en því hvort tækist að ná samstöðu á þessum eða hinum kvöldfundinum í fjárlaganefnd. Á hverju kvöldi var Guðbjartur Hannesson spurður hversu langt væri í land, en ekki um efnisatriði málsins. Morgunblaðið hamaðist sérstaklega ákaft með ríkisábyrgðinni, og það löngu áður en nokkrir fyrirvarar voru gerðir, og lét sér ekki nægja að gera það í forystugreinum heldur iðulega í fréttaflutningi sínum.
Og álitsgjafarnir, um hvað hafa þeir masað síðustu vikur? Fortíðina auðvitað mest, sem engu verður þó breytt um. Það er víst hægt að hafa mikið vit á henni, oft með miklum stóryrðum. En hverjir þeirra hafa treyst sér til að fara vandlega yfir það hvort, og þá með hvaða lagarökum, ábyrgð á þessum reikningum hvílir í raun á íslenska ríkinu?
Áhugaleysi fréttamanna og álitsgjafa á raunverulegum atriðum icesave-málsins er ótrúlegt. Ekki síst þegar horft er til ofboðslegs áhuga sem sömu aðilar fá stundum á allskyns þýðingarlitlum smámálum. Þá er öllum flötum velt upp og málin rætt langt fram yfir síðasta söludag, en þegar hundruð milljarða eru í húfi, þá er enginn áhugi. Hann vaknar líklega ekki fyrr en næst finnst smámál til að hrópa sig hásan yfir.
Þegar hundruð milljarða eru í húfi og allt veltur á því hvort lagaleg rök eru, eða eru ekki, fyrir því að ábyrgð á þeim fjárhæðum hvíli á Íslendingum, þá reynist mönnum ómögulegt að hugsa eða tala um að kjarna málsins.
O g alveg er skoðun Vefþjóðviljans óbreytt. Þeir fjórtán þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem í gær vörðu atkvæði sínu ekki gegn ríkisábyrgð á icesave-reikningum Landsbankans, ættu að óska inngöngu í Samfylkinguna.
Allir vita að síðustu ár hafa margir gagnrýnt Árna Johnsen og talið hann eiga lítið erindi á Alþingi. Ekki þarf að rekja þá umræðu. En þeir sem vilja fjalla af sanngirni um Árna, þeir mega vel viðurkenna að í gær stóð hann sig betur, og átti meira erindi á Alþingi, en mikill meirihluti þeirra sem þar sitja. Fjórtán af sextán þingmönnum Sjálfstæðisflokksins eru kyrfilega í þeim hópi.