N ú hefur vinstristjórnin setið í hálft ár og ætlar í dag að afgreiða á alþingi mestu kjaraskerðingu og búsifjar sem Íslendingum hefur verið ákveðin í manna minnum, og það algerlega að eigin ákvörðun. Áður hafði vinstristjórnin, þvert gegn loforðum annars stjórnarflokksins, ákveðið að óska eftir því að fullveldi landsins yrði afhent erlendu ríkjabandalagi.
Leitar þá hugurinn aftur að síðustu vinstristjórn á undan þessari. Muna menn eftir henni? Kannski var táknrænasta lýsing hennar, og stjórnmálaástandsins á Íslandi þá, þó ekki fólgin í gagnrýni pólitískra andstæðinga, heldur jafnvel frekar í snotru atriði áramótaskaups.
Þá hafði skyndilega verið mynduð vinstristjórn, eftir að Sjálfstæðisflokknum hafði verið hent út úr stjórnarráðinu, næstum á einni nóttu, eftir baktjaldamakk leiðtoga vinstriflokkanna, sem sumir höfðu raunar setið í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Oddviti róttækasta vinstriflokksins, sem þá hét Alþýðubandalagið, náði þannig skyndilega að verða fjármálaráðherra, og um skeið héldu margir stuðningsmanna hans að nú væri þeirra tími kominn. Skömmu síðar urðu kjaradeilur og verkföll, og fóru kennarar meðal annars mikinn, undir forystu Winciar Jóhannsdóttur. Í áramótaskaupi birtist leikari, nauðalíkur fjármálaráðherranum, strauk ráðherrastólinn ástúðlega, og söng við Maístjörnu þeirra Halldórs Laxness og Jóns Ásgeirssonar.
Ó hve létt er þitt stólhljóð ó hve lengi ég beið þín, það er verkfall í skólum nöpur Wincie sem hvín, en ég veit eina stjörnu eina stjörnu sem dvín: Það er fjármálaráðherra- róttæknin mín. |
Þetta voru átakatímar. Fljótlega kom að því að fjármálaráðherrann, sem áður hafði verið tíður gestur í fjölmiðlum og ekki sparað digurbarkaleg orð, hvarf að mestu úr sviðsljósinu en tók að senda þangað formann samninganefndar ríkisins, Indriða H. Þorláksson að nafni. Kom iðulega í hlut Indriða að reyna að telja landsmönnum trú um nýjasta sannleik og vísindi úr fjármálaráðuneytinu. Og áfram var sungið í áramótaskaupi fyrir tuttugu árum:
Það eru erfiðir tímar það er atvinnuþref ég hef ekkert að bjóða – nema Indriða ref. Hann er von mín og líf mitt hvort ég vaki eða sef. Hann er atvinnumaður, hann er allt sem ég hef. |
Fjármálaráðherrann hafði áður talað eins og hann væri einmitt fulltrúi helstu vina láglaunafólks og þeirra sem við kröpp kjör bjuggu. Síðan kom á daginn að kaupmáttur þeirra hríðlækkaði í valdatíð hans og lífskjör versnuðu. Formaður vinstriflokksins, fjármálaráðherrann, reyndist eftir alla sína kokhreysti tilbúinn að semja um hvað sem var við ríkisstjórnarborðið, svo lengi sem hann héldi ráðherrastólnum sjálfur og Sjálfstæðisflokknum utan ríkisstjórnar. Hugsjónamaðurinn reyndist jafn opinn í báða enda og dæmigerðasti framsóknarmaður. Og áfram söng fjármálaráðherrann í áramótaskaupinu:
En í kvöld er ég vinur sérhvers vinnandi manns uns hún skín við á morgun, kjaraskerðingin hans. Kjaraskerðingin okkar okkar alþýðubanns. Fyrir þér ber ég fána gamals framsóknarmanns. |
Þessi ríkisstjórn var mynduð skyndilega, þegar tæplega eitt og hálft ár var liðið af kjörtímabilinu. Var það gert í framhaldi af leyniviðræðum, fyrst milli krata og Alþýðubandalagsmanna og svo Ólafs Ragnars Grímssonar við framsóknarmenn. Ríkisstjórnin vann sér það einna helst til frægðar að setja bráðabirgðalög til að svíkja eigin kjarasamning við opinbera starfsmenn. Ráðherra vinnumarkaðsmála var þá Jóhanna Sigurðardóttir en Ólafur Ragnar Grímsson hélt um alla þræði við stjórnarmyndunina. Helsti bardagamaður stjórnarinnar var ráðherrann Steingrímur J. Sigfússon, sem barðist eins og ljón fyrir því sem annar ráðherra vinstrimanna, Svavar Gestsson, hafði lagt á ráðin um.
Baráttuaðferðir Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma voru einkum undanhald og sjálfsefi. Sýna auðmýkt og mótmæla engu sem um sig væri sagt. Trúa gagnrýni málpípna andstæðinganna, eins og þær töluðu fyrir þjóðina. Mjög áríðandi þótti að Hannes Hólmsteinn Gissurarson fengi hvergi að sjást. Morgunblaðið var að búa sig undir langa baráttu fyrir helsta hugðarefni krata, sem á þeim tíma var „auðlindagjald“.
Það er fagnaðarefni að þetta sé allt liðin tíð. Gleðilega Icesave-ánauð.