E r það ekki hér um bil sama fólkið sem taldi Íslendinga fyrir nokkrum misserum vera öðrum meiri viðskiptasnillinga og telur nú að gangast verði undir Icesave-ánauðina til að falla ekki í áliti hjá heimsbyggðinni?
Því er meðal annars haldið fram að hér vilji enginn útlendingur eiga viðskipti nema Alþingi hneppi íslenska skattgreiðendur í ánauð vegna þessara viðskipta einkafyrirtækis sem fóru út um þúfur. Þó hefur aðeins lítið brot mannkyns heyrt um Icesave-málið og eina leiðin til að það breytist er að íslenska ríkið kikni á næstu árum undan þessum skuldum. Fá ef nokkur dæmi eru því til staðfestingar að íslensk fyrirtæki eigi í basli erlendis vegna Icesave-málsins.
Þvert á allt talið um að útlendingar fúlsi við viðskiptum við Íslendinga gerir svo kanadískt orkufyrirtæki tilraun til að kaupa hlut í íslensku orkufyrirtæki af íslenskum eigendum. Þá er forstjóri þess kallaður á teppið hjá Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra eins og það gangi vart að útlendingar séu að koma með peninga hingað án þess að búið sé að samþykkja Icesave-delluna.
Danskt fyrirtæki sem selur hingað sementspoka fær sömuleiðis glósurnar frá Jóni Bjarnasyni landbúnaðarráðherra.
Kannski vinstri grænum verði að þeirri ósk sinni að viðskipti við útlönd leggist af þegar búið verður að samþykkja Icesave-ánauðina í þinginu. Það væri eftir öðru ef þeir næðu að einangra landið með Icesave-ánauðinni með þeim rökum helstum að annars vilji enginn eiga viðskipti við landið.