Ó tal innlendir lögfræðingar hafa í fyrsta skipti náð samstöðu: Íslendingum ber ekki að greiða grænan eyri vegna Icesave-reikninga Landsbanka Íslands hf. Erlendir sérfræðingar, sem fengnir hafa verið til ráðgjafar, segja það sama. Lögmenn benda á, að möguleikum íslenskra aðila til skuldajafnaðar á hendur Bretum, atriði sem getur varðað jafnvel hundruðum milljarða króna, sé ekki haldið til haga, heldur þvert á móti, í samningum við Breta. Fjármálaráðherra Hollands, annars ríkisins sem gerir kröfur á hendur Íslandi, viðurkennir að tryggingasjóður innlána eigi ekki við í tilviki eins og þessu. Í stuttu máli má segja að næstum enginn í veröldinni nema Steingrímur J. Sigfússon, Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson geri sjónarmið Breta og Hollendinga að sínum.
En allt kemur fyrir ekki. Alþingismenn virðast slegnir þvílíkri blindu að hjá þeim kemst ekkert að nema „ljúka málinu“, „ná breiðri samstöðu“ og að tryggja að „fyrirvararnir haldi“.
Þeir virðast ekki hafa nokkurn á huga á því hvað allir aðrir haldi.
Ætli þeir hafi hugsað eina sekúndu út í þá spurningu, hvers vegna Bretar og Hollendingar, sem auðvitað hafa séð hina mögnuðu „fyrirvara“ Guðbjarts Hannessonar og félaga í fjárlaganefnd, segi ekki aukatekið orð, fyrr en alþingi verður á að samþykkja frumvarp Steingríms J. Sigfússonar? Hvernig halda menn að þeir létu, ef „fyrirvarar“ Guðbjarts ógnuðu hagsmunum þeirra hið minnsta?
Íslenska ríkið ber enga ábyrgð á Icesave-reikningum Landsbanka Íslands. Því ætla alþingismenn hins vegar að breyta.
Sjálfstæðismenn, sem ætla af sjálfseyðingarhvöt að elta vinstriflokkana í að leggja á íslenska ríkið skuldir sem því koma ekki við, hreykja sér hins vegar af því, í algeru skilningsleysi á fullkominni niðurlægingu sinni, að þeir séu sko búnir að „kollvarpa frumvarpi ríkisstjórnarinnar“. Jújú og hvað með það? Þegar hundruða milljarða kröfur skella á landinu, algjörlega að óþörfu, eftir nokkur ár, hver mun þá hugsa með sér hvað þeir stóðu sig vel, töffararnir sem kollvörpuðu frumvarpinu hans Steingríms?
Auðvitað er engin von með Samfylkinguna. Hún lyppast jafnan niður fyrir evrópskum útlendingum. Vinstrigrænir virðast lyppast niður, hvenær sem Samfylkingin eða álitsgjafar væna þá um að hata sjálfstæðismenn ekki nægilega. Þá eru bara hinir flokkarnir eftir. Og svo það sé ítrekað: Hver sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem ekki greiðir atkvæði gegn Icesave-frumvarpi Steingríms J. Sigfússonar, á þegar í stað að ganga formlega til liðs við Samfylkinguna. Þar ætti að fara vel um hann.