Þriðjudagur 18. ágúst 2009

230. tbl. 13. árg.
Þ að hefur vafalítið komið mörgum spánskt fyrir sjónir hve Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra er einbeittur og staðráðinn í að koma Íslendingum í Icesave-ánauðina. Það er eitthvað svo klikkað að Steingrímur J. beiti sér af lífs og sálar kröftum fyrir því að íslenska ríkið þjóðnýti tap einkafyrirtækis af mislukkuðu ævintýri í útlöndum. Steingrímur hefur hvorki verið hrifinn af einkarekstri né innflutningi. Með Icesave-ánauðinni verður Steingríms minnst fyrir að láta skattgreiðendur hlaupa undir bagga með þrotabúi einkafyrirtækis og flytja inn skuldir þess. Það er jafnvel furðulegra en að helsta verk Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra sé að byggja bílastæðahús fyrir 1800 bíla – einkabíla.

Steingrímur hefur sjálfur litlar skýringar gefið á því hvers vegna Icesave-ánauðin er honum slíkt kappsmál. Helst er að heyra á honum að það geti tafið alþjóðagjaldeyrissjóðsvæðingu Íslands en það er ekki sérlega sannfærandi skýring úr ranni vinstri grænna sem lögðu mikla fæð á þessa ríkisstofnun í DC þar til glitti í ráðherrastólana.

En þótt Steingrímur tali ekki af sér um Icesave duldina gat félagi hans úr norska systurflokknum ekki stillt sig um það í síðustu viku.

Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, segir að Ísland verði að ljúka samningum um Icesave áður en Noregur greiði út lán. Norskir skattgreiðendur muni ekki borga reikninginn fyrir hægritilraunir Íslendinga.

Þar hafa menn það. Icesave-ánauðin er liður í því að refsa Íslendingum fyrir að hafa kosið yfir sig ranga flokka. Sektin fyrir að hafa ekki kosið Steingrím J. til valda undanfarin 18 ár er nokkur hundruð milljarðar króna.