J æja, nóg komið af tali um það sem illa gengur, þó sumir fái aldrei nóg af slíku umræðuefni.
Í dag eru fjögur ár liðin frá því Andríki opnaði Bóksölu sína á vefnum. Fyrsti ágúst 2005 var frídagur verslunarmanna og þótti félaginu sá dagur eðlilegur til að opna verslun, svo hagkerfið stöðvaðist ekki. Síðan þá hefur Bóksalan boðið upp á tugi bóka, sumra nú uppseldra, auk áskrifta að hinu nauðsynlega tímariti, Þjóðmálum, og stakra hefta þess.
Í Bóksölunni eru nú til sölu 26 mismunandi bókatitlar, ólíkar bækur sem þó eru allar valdar í Bóksöluna af því þær þykja líklegar til að höfða til hugsandi áhugamanna um þjóðmál og menningu. Þarna er hinn einstaki bókaflokkur Ólafs Teits Guðnasonar um fjölmiðla, sem sýnir hvílíkan hrylling er þar við að etja; þarna eru bækur um hagfræðileg málefni, eins og hin óvenjulega aðgengilega bók, Hagfræði í hnotskurn, og Leyndardómur fjármagnsins; þjóðfélagsbókaflokkur Bókafélagsins Uglu, þar sem þegar eru komnar Íslamistar og naívistar, Ranghugmynd Richard Dawkins og Dýrmætast er frelsið, bækurnar Kommúnisminn og Nótt sem með mjög ólíkum hætti fjalla um tvennskonar skelfingu; og ævisögur og endurminningar þeirra Hannesar Hafstein og Kristjáns Albertssonar, svo fá dæmi séu nefnd.
Og svo skal minnt á Þjóðmál, en áskrift að því tímariti fæst í Bóksölunni. Þjóðmál eru algerlega nauðsynleg rödd til andófs því gaspri sem tröllríður nú opinberri umræðu. Mikilvægi þeirra mun aukast á næstu árum.
Heimsending innanlands er innifalin í verði alls þess sem selt er í Bóksölunni. Við erlendar pantanir bætist 600 króna sendingargjald.