Í gær minntist Vefþjóðviljinn á tvær yfirlýsingar sem núverandi forsætisráðherra hefur gefið á alþingi undanfarið, sem fréttamenn hafa lítinn áhuga á að bera saman við veruleikann. Skiptir þó talsverðu að fylgst sé með því hvað er að marka orð æðstu ráðamanna, einkum á tímum sem þessum, þegar stjórnvöld reyna að dáleiða menn til að samþykkja Icesave-ánauðina, mestu fjárhagsskuldbindingu í sögu landsins, og það án þess að nokkur til þess bær aðili hafi kveðið upp úr um skyldu landsins til þess.
Hversu mikið er að marka það sem Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og aðrir ráðherrar fullyrða um íslensk efnahagsmál og um það sem mun gerast eða ekki gerast?
Hvernig var nú aftur talað í sumar? Bara það að senda inngöngubeiðni í Evrópusambandið átti nú aldeilis að bera strax sýnilegan ávöxt, því með inngöngubeiðninni yrðu send svo mikil og merkileg skilaboð. Síðan inngöngubeiðnin var send hefur gjaldmiðill landsins fallið í verði, svonefndar vinaþjóðir í Skandinavíu neitað að virða gerða samninga og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bregst líka vonum íslenskra stjórnvalda. Enginn fréttamaður rifjar upp talið um það hve inngöngubeiðni í Evrópusambandið átti að breyta miklu.
Hvernig var það líka í vetur, þegar lögum var breytt til að skipta um seðlabankastjóra. Dögum og vikum saman var þulið í fréttatímum að það væri forsenda þess að auka „traust Íslands erlendis“. Gengið átti að styrkjast, vextir að lækka og ef málið hefði tafist enn meira hefði líklega verið lofað hlýrra sumri um leið og bankastjórarnir hættu. Fréttamenn Ríkisútvarpsins, ekki síst þingfréttaritari þess, höfðu gríðarlegan áhuga á þessu framfaramáli. Enginn þeirra hefur séð ástæðu til þess, síðustu fimm mánuði, að bera árangurinn saman við stóru orðin fyrirfram, enda hvarf áhugi fréttamanna á Seðlabankanum nær alveg, um leið og lögum um hann var breytt.
Og enn hafa fréttamenn ljósvakans ekki sýnt því áhuga að svo virðist sem viðskiptaráðherra fari með vísvitandi ósannindi í opinberum yfirlýsingum. Fréttamenn hafa reyndar ekki áhuga á að spyrja „ópólitísku ráðherrana“ neins sem gæti orðið til þess að spilla trú áhorfenda á „ópólitískum ráðherrum“. Þeir hafa ekki einu sinni spurt ráðherrana hvort, eða þá hvað, þeir hafi kosið í síðustu alþingiskosningum, sem er ótrúlegt áhugaleysi. Dómsmálaráðherrann, sem er lögfræðingur, er ekki einu sinni spurður um álit sitt á rökstuddri gagnrýni lögmanna og lagaprófessora á Icesave-mál ríkisstjórnarinnar.