E nn hafa fréttamenn ljósvakans ekki sýnt því nokkurn áhuga að svo virðist sem núverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands hafi vísvitandi farið með ósannindi í opinberri yfirlýsingu til landsmanna, sjálfum sér til bjargar. Það áhugaleysi fréttamanna verður bráðum jafn fréttnæmt og ósannandi ráðherrans.
Í slenskir fréttamenn ræða oft við „ópólitísku ráðherrana“, þá furðusmíð íslenskra nútímastjórnmála. Enn hefur þeim ekki dottið í hug að spyrja ráðherrana hvort, og þá hvað, þeir hafi kosið í síðustu alþingiskosningum. Það er alveg magnað. Nú hafa umræddir stjórnmálamenn að vísu fengið þrjá mánuði til að hugsa svarið, en sennilega hefur sú umhugsun verið til einskis, því ráðherrarnir verða aldrei spurðir.
ÍÍ slenskir fréttamenn segja nú daglegar fréttir af því að þetta eða hitt ríkið hafi lýst yfir „stuðningi“ við inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið. Enginn fréttamaður spyr hvort þetta þýði að þau styðji að Ísland fái varanlegar undanþágur frá reglum sambandsins og enginn fréttamaður hefur sett þetta í samhengi við þann langa dáleiðslusöng þingfréttaritara, Samfylkingarinnar og Samtaka iðnaðarins, að Ísland væri einfaldlega að að „sjá hvað væri í boði“, væri alls ekki að óska eftir inngöngu í Evrópusambandið heldur bara að „hefja aðildarviðræður“, sem fram í miðjan júlí 2009 var allt annar hlutur. En núna minnist enginn á það framar og sú furðukenning gufar upp næstum eins hratt og leifar trúverðugleika vinstri grænna gerðu.
ÍÍÍ slenskir fréttamenn sögðu glaðir frá því að Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra í Stokkhólmi hefði farið í sænska utanríkisráðuneytið og afhent inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið. Sýndu hreyknir fréttamenn mynd af bréfinu, undirrituðu af hinum hæfu ráðherrum, Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni. Enginn fréttamaður rifjar þetta upp, þegar Össur Skarphéðinsson flýgur nokkrum dögum síðar í ofboði til Stokkhólms til að afhenda inngöngubeiðni Íslands aftur. Ætli fréttamenn hefðu gleymt fyrri sigurför íslenskra stjórnvalda svona hratt, ef einhver annar flokkur hefði setið í utanríkisráðuneytinu?
Og rétt eins og enginn fréttamaður vill orðinu halla á „fagmanninn“ Gylfa Magnússon, jafnvel þó sú nærgætni þyrfti að kosta það að fréttastofurnar neituðu sér um að segja frá skjalfestum ósannindum starfandi ráðherra, þá vill enginn fréttamaður gefa áhorfendum til kynna að fagmennirnir í utanríkisráðuneytinu kunni ekki einu sinni að afhenda inngöngubeiðni í Evrópusambandið, nú loksins þegar þeir fá nýtt draumaverkefni upp í hendurnar, eftir tveggja ára sigurgöngu, með margháttuðum stuðningsyfirlýsingum ótal landa, við að koma Íslandi í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.