J ón Kaldal ritstjóri Fréttablaðsins er mikill áhugamaður um að afnema tvennt þessa dagana. Hann vill afnema fullveldi Íslands með aðild að ESB og afnema fjárhagslegt sjálfstæði Íslendinga með því að Alþingi samþykki ríkisábyrgð á Icesave viðskiptum einkaaðila. Um það síðarnefnda segir hann í leiðara Fréttablaðsins í dag:
Ísland er bæði ofar en Holland og Bretland á lista OECD yfir ríkustu þjóðir heims. Það stendur örugglega nokkuð í ráðamönnum beggja þjóða að bjóða skattborgurum sínum upp á að blæða fyrir ævintýramennsku íslensks banka og klúður íslenskra eftirlitsstofnana. |
En hvað með ævintýramennsku breskra og hollenskra sparifjáreigenda sem lögðu sparifé sitt í lítt þekktan netbanka fyrir vonina um örlítið hærri vexti en buðust annars staðar? Hvað með klúður ESB við gerð tilskipunar um innistæðutryggingar sem gerði augljóslega ekki ráð fyrir að bankar í litlum löndum gætu orðið stórir í viðskiptum handan landamæranna? Og síðast en ekki síst, hvers vegna þurfa skattgreiðendur, íslenskir, breskir eða hollenskir, yfirleitt að koma að þessum viðskiptum einkabanka við einstaklinga?
H vernig ætli opinber umræða á Íslandi hefði orðið á tímum Hafskips-málsins, ef þá hefði verið búið að finna upp bloggið?
Það er reyndar merkilegt að fylgjast með þróuninni hjá þeim sem hæst láta og kynda ákafast undir almenningsáliti hverju sinni. Þegar Hafskips-mál komu upp, þá vantaði ekki æsinginn. Stóryrðin gengu, til dæmis úr ræðustóli alþingis og forystugreinum flokksblaða, um það hvílíkir glæpamenn hefðu þar átt í hlut, ekki aðeins forstjóri heldur ýmsir aðrir starfsmenn og sérfræðingar. Miklar sögur voru sagðar af bralli og bruðli sem þessir menn áttu að hafa staðið fyrir. Ein æsingahrinan snerist um golfkúlur með merki félagsins.
Nokkrum árum síðar hafði hin viðurkennda speki alveg snúist við. Þá var það kenning álitsgjafanna að Hafskip hefði verið „knúið í þrot“, hefði aldrei orðið gjaldþrota en málið hefði sko verið að Hafskips-menn hefðu verið alþýðuhetjur að berjast við hið vonda Eimskipafélag sem hefði kippt í spotta og komið Hafskipi á hliðina og forsvarsmönnunum í fangelsi. Einhvers staðar á bakvið hlytu að vera „einkavinir“ Eimskips sem hefðu beitt sér gegn Hafskips-mönnum. Í áratug hafa álitsgjafar verið með það sem eina af staðreyndum sínum að „nornaveiðarnar“ í Hafskips-málinu væru ljótur blettur á síðari tíma sögu Íslands.
Næst komu Baugsmál. Þá kom upp sú viðurkennda speki að allt væri það líka runnið undan rifjum vondra manna. Mörgum álitsgjöfum og fjölmiðlamönnum þótti lítil þörf á að rannsaka ávirðingar á Baugsmenn, en mikil ástæða til að rannsaka „aðdraganda Baugsmálsins“. Slíkar kröfur komu víða að og í þingsölum var kynt undir og alið á tortryggni í garð lögreglu og ákæruvalds. Ef að málum gegn Baugsmönnum lauk með sýknu eða frávísunum, sögðu álitsgjafar að dómstólar hefðu „staðist prófið“.
Skýringin á Baugsmálum hlaut í huga margra álitsgjafanna og stjórnmálamanna að liggja hjá vondum mönnum. Baugsmenn væru dæmi um nýja og glæsilega viðskiptamenn sem „ógnuðu gömlum hagsmunum“. Á bak við ákærur væru stjórnmálamenn sem sæju ofsjónum um yfir útrásinni og glæsilegum árangri hennar.
Þegar allt gekk bönkunum í hag, þá var talað um það að þarna væri komið nýtt hagkerfi og væri það mikill munur frá þeim óhæfu mönnum sem áður hefðu ráðið. Enda fylgdi gjarnan sögunni að gamlir og vondir stjórnmálamenn gleddust lítið yfir glæsilegum árangri bankanna um heim allan, enda væru þar ekki á ferð vildarvinir ráðamanna. Þeim þættu hinir nýju menn viðskiptalífsins bara nýríkir ruddar.
Þegar harðna tók á dalnum hjá bönkunum, þá var talað um það að ekki gengi að við völd hjá hinu opinbera væru menn sem alltaf hefðu verið á móti útrásinni og ungu mönnunum. Einstaka valdamaður var sagður „hata bankana“.
Þegar bankarnir eru komnir í þrot þykir rekstur þeirra hafa verið allur hinn ómögulegasti. Skýringin á því er sú, að vondu stjórnmálamennirnir gáfu „einkavinum“ sínum bankana. Álitsgjafarnir vita sko allt um þá vináttu.
Það sem nú hlýtur að vera brýnast er að gera úttekt á einkavæðingu bankanna fyrir áratug, þar var allt tómt svínarí.