Helgarsprokið 19. júlí 2009

200. tbl. 13. árg.

J æja, best að taka stutt frí frá innlendum þjóðmálum. Það eru takmörk fyrir því hvað rétt getur verið að svekkja sig á sólríkum sunnudögum.

Á dögunum hafnaði hæstiréttur Bandaríkjanna málsókn sem heiðurshjónin Valerie Plame Wilson og Joseph C. Wilson fjórði höfðu staðið fyrir gegn ríkisstjórn Bush, í tengslum við að starf hennar hjá bandarísku leyniþjónustunni hafði lekið út.Um tíma hafði Joseph C. Wilson fjórði verið mikill maður í fjölmiðlum víða um heim, einnig á Íslandi og þá sérstaklega í Morgunblaðinu, þegar hann var heimildamaður fyrir því að bandarísk stjórnvöld hefðu vitað að Saddam Hussein hefði ekki reynt að kaupa úran í Afríku, þar sem Wilson hafði verið sendiherra.

Um Joseph C. Wilson fjórða og tímabundið stjörnuhlutverk hans í vestrænum fjölmiðlum skrifaði Ólafur Teitur Guðnason lítillega í fyrstu fjölmiðlabók sinni, Fjölmiðlum 2004.

Talsmenn Bush Bandaríkjaforseta viðurkenndu sumarið 2003 að það hefðu verið mistök að fullyrða í ræðu á Bandaríkjaþingi í ársbyrjun 2003 að Írakar hefðu þá nýverið reynt að kaupa úran í Afríku. Í ljós hafði komið að gögn um þetta voru fölsuð. Fór þetta vafalaust fram hjá fáum og spillti málið málstað Bush. Og Ólafur Teitur segir, og eru hornklofar frá honum komnir:

Margir muna sjálfsagt líka eftir náunga sem ruddist fram í sviðsljósið um svipað leyti og jók enn á alvarleika málsins. Hann fullyrti að Bush-stjórnin hefði ekki gert „mistök“ heldur talað gegn betri vitund; viðkomandi hefði nefnilega sjálfur upplýst málið löngu áður en Bush hélt ræðuna.
Sá sem um ræðir er Joseph C. Wilson fjórði, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Gabon, sem núna virðist vera týndur en var einu sinni eftirlæti fréttamanna. CIA sendi Wilson til Níger í febrúar 2002 til þess að afla upplýsinga um hvort Írakar hefðu annað hvort keypt eða falast eftir úrani þaðan, enda benti ýmislegt til að svo væri. Wilson varð vinsæll þegar hann greindi frá því í fyrrasumar, að hann hefði komist að því í leiðangrinum að ekkert væri hæft í þessu og að hann hefði gefið stjórnvöldum skýrslu um það, löngu áður en Bush hélt hina afdrifaríku ræðu.
Samkvæmt fjölmiðlum er Wilson þessi hvorki meira né minna en aðalboðberi sannleikans í málinu, eins og þessi dæmi úr Morgunblaðinu frá því í fyrra sýna:
9. júlí: „Eftir komuna sagðist [Wilson] ekki hafa verið lengi að draga þá ályktun að mjög ólíklegt væri að úranviðskipti eða viðræður um þau á milli Íraks og Nígeríu [sic] hefðu nokkurn tíma átt sér stað.“
18. júlí: „Var bandarískur diplómat, Joseph Wilson, sendur til Nígers til að kanna málið. Rannsókn CIA leiddi ekkert í ljós sem benti til að fullyrðingarnar væru réttar.“
30. september: „[Wilson] upplýsti á síðasta ári, að fullyrðingar Breta um tilraunir Íraka til að kaupa úran í Níger væru byggðar á fölsuðum skjölum.“
1. október: „Wilson upplýsti í fyrra að fullyrðingar breskra stjórnvalda um að Írakar hefðu reynt að kaupa úran í Níger í Afríku byggðust á fölsuðum skjölum.“
Wilson var vitanlega einnig vinsælt fréttaefni í Bandaríkjunum. Þar kom ýmislegt til og ekki síst það, að þarna var á ferðinni embættismaður til margra ára sem fullyrti hástöfum, að Bush hefði „logið“ að þjóðinni í aðdraganda Íraksstríðsins. NBC birti 40 fréttir um mál Wilsons, CBS 30 fréttir, ABC 18 fréttir, Washington Post 96 fréttir, New York Times 70 fréttir og Los Angeles Times 48 fréttir. Wilson prýddi forsíðu vikuritsins Time og var gestur í öllum helstu spjallþáttum. Vinstrablaðið The Nation sæmdi hann „sannleiksverðlaununum“.
Svo gerðist það fyrr í þessum mánuði, að leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, skipuð fulltrúum beggja flokka, skilaði af sér skýrslu sem leiðir í ljós að allt var þetta meira og minna bull.
Wilson staðfesti við þingnefndina það sem hann hafði grobbað sig af: að hann hefði verið heimildamaður fyrir frétt Washington Post þess efnis að skjölin frægu um hin meintu úrankaup Íraka væru fölsuð. Hins vegar stóð hann á gati þegar nefndarmenn spurðu hvernig þetta mætti vera, þar sem hann hefði ekkert vitað um skjölin og því ekki haft neinar forsendur til að meta trúverðugleika þeirra. Hann viðurkenndi að „hugsanlega“ hefði hann „mismælt“ sig við fréttamann, „hugsanlega“ hefði hann ruglast á því sem hann vissi af eigin raun og því sem komið hefði fram í fréttum, „hugsanlega“ hefðu fréttir um að skjölin væru fölsuð ruglað hann í ríminu og hann óvart byrjað að ímynda sér að hann hefði séð þau sjálfur! (Þeim sem þykir þetta ótrúlegt er bent á bls. 45 í skýrslu þingnefndarinnar, sem er aðgengileg á netinu: http://intelligence.senate.gov.)
Wilson laug líka þegar hann fullyrti, að leiðangur hans til Níger hefði ekki leitt neitt í ljós sem benti til þess að Írakar hefðu reynt að verða sér úti um úran. Fyrrverandi forseti Níger sagði honum nefnilega, að árið 1999 hefði hann verið beðinn að hitta sendinefnd frá Írak til þess að ræða „aukin viðskipti“ landanna. Forsetinn fyrrverandi sagði Wilson, að hann hefði sjálfur gengið út frá því sem vísu að ræða ætti um kaup á úrani, en hann hefði vísvitandi gætt þess að gefa engin færi á slíku tali á fundinum, enda ekki haft áhuga á að standa í ólöglegu bralli.
Þannig liggur sem sagt í málinu: Wilson er sendur af stað til þess að komast að því hvort Írakar hafi reynt eða tekist að verða sér úti um úran. Fyrrverandi forseti Níger telur að þeir hafi reynt það. Wilson snýr heim og segir frá þessu en bætir að vísu við, að hann telji ólíklegt að stjórnvöld í Níger séu til viðræðu um slík viðskipti eða að þau séu yfir höfuð möguleg. Bandaríska leyniþjónustan telur – líklega réttilega – að í þessu felist fátt nýtt og gerir lítið með niðurstöður Wilsons. Seinna stígur Wilson svo fram og fullyrðir, að hann hafi sýnt fram á að það væri útilokað að Írakar hefðu reynt að verða sér úti um úran og enn fremur hafi hann úrskurðað, að fyrirliggjandi gögn um slík viðskipti væru fölsuð – gögn sem hann hafði aldrei séð og vissi ekkert um!
Til að bæta gráu ofan á svart laug Wilson því að konan hans – sem starfaði hjá CIA – hefði ekki haft neitt með það að gera, að hann var sendur til Níger, en nóg er víst að gert þótt ekki sé farið út í þá sálma hér. Það skal slíka látið nægja að rétt minnast á það, að rannsóknarnefnd breska lávarðarins Butler hrekur ýmsar staðhæfingar Wilsons, rétt eins og skýrsla bandarísku þingnefndarinnar.
Það er rétt og skylt að minna á, að skýrslan er þrátt fyrir allt áfellisdómur yfir leyniþjónustu Bandaríkjanna, sem er gagnrýnd fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir að ummælin rötuðu í forsetaræðuna frægu. Hins vegar er niðurstaðan einnig sú, að ferð Wilsons til Níger hafi styrkt grun flestra innan leyniþjónustunnar um að Írakar hefðu freistað þess að koma úran frá Níger. Allt þar til upp komst um hin fölsuðu skjöl í október 2002, löngu eftir að Wilson gaf skýrslu sína – hafi fyrirliggjandi upplýsingar réttlætt þá ályktun, að Írakar kynnu að hafa haft uppi tilburði í þessa veru. Undir þessa niðurstöðu skrifa allir nefndarmenn, hvar í flokki sem þeir standa. Meðal þeirra er reyndar John Edwards, varaforsetaefni demókrata.
Morgunblaðið (sem geldur þess hér að bjóða upp á fullkomna leitarvél á netinu, einn íslenskra fjölmiðla) hefur birt eina frétt um þessa skýrslu. Í henni er ekki minnst einu orði á rangfærslur Wilsons. NBC hefur birt eina frétt um skýrsluna, ABC eina frétt, CBS enga frétt, Washington Post 2 fréttir, New York Times 2 fréttir og Los Angeles Times 2 fréttir.
Það skondna er að Wilson, sem hefur líklega oftar en nokkur annar kallað Bush forseta lygara á opinberum vettvangi, gaf í apríl út bók um málið sem hann kaus að kalla: Politics of Truth eða Stjórnmál sannleikans.
Nokkru áður stofnaði hann vefinn www.RestoreHonesty.com eða Endurheimtum heiðarleika, sem var helgaður stuðningi Wilsons við John Kerry, forsetaframbjóðanda demókrata, og reyndar alfarið fjármagnaður úr kosningasjóðum hans. Síðast liðinn laugardag þótti Kerry þetta ekki lengur sniðugt og tók vefinn alfarið yfir. Þar er nú ekki að finna aukatekið orð um Joseph Wilson og jukust vitaskuld við það líkurnar á því að vefurinn standi undir nafni.
John Kerry er að sjálfsögðu frjálst að breyta vef sínum eins og hann lystir. Hitt er heldur verra, að fjölmiðlar, sem eiga að kallast óháðir, beiti sömu aðferð og forsetaframbjóðandinn og stroki málið einfaldlega út. Í ritstjórnargrein Morgunblaðsins þann 15. þessa mánaðar sagði að skýrsla þingnefndarinnar sýndi „meingölluð vinnubrögð“ hjá leyniþjónustunni: „Notkun heimilda hefur verið með ólíkindum og þær teldust ekki standast lágmarkskröfur til birtingar í flestum fjölmiðlum,“
Hvað þá með þau vinnubrögð fjölmiðla að slá hvað eftir annað upp bullinu í Joseph C. Wilson fjórða? Og birta svo ekki stafkrók um það, þegar það var allt hrakið?

Æ, bara ef þessi frásögn væri einsdæmi. En því miður er hún nær því að vera daglegt ævintýri sjónvarpsáhorfenda og blaðalesenda um allan heim. Fjölmiðlabækur Ólafs Teits fást í Bóksölu Andríkis.