Þ að var vel við hæfi, sem táknrænt salt í sár vinstrimanna, að það yrði sendiherra Íslands í Svíþjóð sem færði Evrópusambandinu inngöngubeiðni Íslands. Sendiherra Íslands í Svíþjóð er nefnilega enginn annar en Guðmundur Árni Stefánsson, en auk þess að vera sendiherra Íslands er hann núverandi formaður Alþýðuflokksins. Var þetta táknrænn lokahnykkur á því er íslensk vinstrihreyfing skráir sig endanlega úr leik en forystumenn hennar fara á nokkurra ára biðlaun sem valdalausir ráðherrar í ríkisstjórn krata.
Það liggur við að menn geti haldið að þetta hafi verið raunveruleg ástæða þess að kratar vildu endilega að umsókn yrði skilað inn á þeim mánuðum þegar Svíar fara með forystu Evrópusambandsins. Sú fjarstæða að þeir myndu greiða Íslandi leið inn í sambandið var að minnsta kosti leiðrétt með yfirlýsingu forsætisráðherra Svíþjóðar, klukkustundu eftir niðurlægingu alþings í vikunni.
F jölmiðlar Evrópusambandssinna á Íslandi hafa síðasta sólarhringinn lagst í vörn fyrir núverandi varaformann Sjálfstæðisflokksins, sem sat hjá þegar greidd voru atkvæði um hvort Ísland ætti að biðja um inngöngu í Evrópusambandið. Hafa þeir látið eins sú hjáseta hafi verið sérstakt dirfskumerki enda hefði varaformaðurinn þar farið eftir „sannfæringu sinni“, og sé það eina skylda þingmanna.
Það er raunar merkilegt að sannfæring þingmanns geti verið að menn eigi að sitja hjá í máli sem þessu, en þingmaðurinn hefði þá væntanlega talið að það hefði verið jafn rétt af öðrum þingmönnum. En það er annað mál. Þeir, sem af ákafa koma núverandi varaformanni Sjálfstæðisflokksins til varnar, láta sér sjást yfir afar mikilvægt atriði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur árum saman verið eindreginn andstæðingur þess að Ísland renni inn í Evrópusambandið. Síðasti landsfundur gerði ekki á því breytingu, þó hann hafi sagst geta fallist á þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort inngöngubeiðni yrði send til Brussel. Ef að það er raunverulega sannfæring núverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins að afnema megi fullveldi landsins og það renna inn í Evrópusambandið, hefði varaformanninum borið að upplýsa landsfund Sjálfstæðisflokksins um það fyrir varaformannskjör, en ekki eftir. Varaformaðurinn gaf kost á sér eftir að stefna flokksins í hinum gríðarlega mikilvægu Evrópumálum hafði verið samþykkt, og þar með tók varaformaðurinn að sér að berjast fyrir þeirri stefnu. Evrópustefnan og viðhorfin til fullveldis landsins eru mikilvægari en svo, að landsfund hafi ekki varðað um að varaformannsefni hefði á þeim aðra skoðun en Sjálfstæðisflokkurinn.
Það er vegna þessa sem staða varaformannsins hefur veikst frá því sem áður var. Ekki vegna þess að varaformaðurinn hafi „fylgt sannfæringu sinni“.
U ndanfarna daga vakti Vefþjóðviljinn athygli á því að fréttastofa Ríkisútvarpsins hefði nær engan áhuga haft á því stórmerkilega máli er fjöldi frambjóðenda og annarra forystumanna vinstrigrænna í kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar sagði hann opinberlega vera „ómerking“, vegna framgöngu hans við að tryggja inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið. Var það áhugaleysi sérstaklega merkilegt í ljósi þess mikla áhuga sem sama fréttastofa hefur iðulega á röddum úr öðrum grasrótum.
Það er hins vegar alveg sjálfsagt að sýna fréttastofunni þá sanngirni sem hún svo oft neitar öðrum um, og láta þess getið hér að í gærkvöldi sýndi hún lit og ræddi í annarri frétt kvöldsins við þann mann er frumkvæði hafði af hinu opna bréfi til Steingríms J. Sigfússonar. Að vísu var þessi frétt ekki gerð fyrr en allt var um garð gengið á alþingi og þess var auk þess ekki getið í fréttinni að frambjóðendur, bæjarfulltrúi og kjörnir trúnaðarmenn flokksins skrifuðu undir það, heldur mátti skilja fréttina sem að málið væri skoðun eins bónda í Grýtubakkahreppi. Var stuðningur þessara áhrifamanna þó það fréttnæmasta við málið. En það var þó talað við upphafsbréfritarann, fréttastofan má eiga það sem hún á.