E ins og bent hefur verið á létu fréttamenn Ríkisútvarpsins sér vel líka um síðustu helgi að Steingrímur J. Sigfússon skyldi ekki svara athugasemdum Davíðs Oddssonar í Morgunblaðsviðtali með öðru en skætingi um Davíð. Fréttastofu Ríkisútvarpsins fannst þá allt komið fram sem þyrfti að koma fram og spurði Steingrím ekki um efnisatriði málsins. Svipaða sögu má segja af fleiri fjölmiðlum.
Til gamans má rifja eitt upp í sambandi við þetta. Muna menn eftir því, þegar Steingrímur J. Sigfússon barðist með Samfylkingunni frá morgni og fram eftir nóttu, vikum saman, við að stöðva tilraun þáverandi ríkisstjórnar til að hindra að fjölmiðlar í landinu söfnuðust á örfáar hendur sem auk þess væru með „markaðsráðandi stöðu“, sem kallað er í samkeppnisfræðum, á öðrum sviðum? Þá bar svo við að þáverandi forsætisráðherra var ekki viðstaddur eina eldmessu Steingríms, sem brást svo við að kalla ráðherrann bæði „gungu og druslu“ úr ræðustóli Alþingis.
Hversu oft hafa fréttamenn rifjað þetta upp síðan? En hversu oft ætli þeir hefðu gert það, ef hin ofsafengu ummæli hefðu verið á hinn veginn? Ætli þau hefðu jafnvel flotið með fréttum helgarinnar? Og bloggararnir og álitsgjafarnir, hversu oft hefðu þeir nú ekki rifjað þetta upp, ef einhver annar en Steingrímur hefði talað svona?
Amx.is birti í smælkisdálki sínum í gær, nokkrar ferskeytlur sem nú ganga milli manna, og greinilega hafa ekki verið samdar á fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Daprast flug og dvínar von
í dreifðum landsins byggðum.
Steingrímur Jóhann Sigfússon
sveik okkur í tryggðum.
Vesalings Steingrími er starfið um megn
stefnuna hefur hann svikið.
Hann er að verða glær í gegn
gagnsæið er svo mikið.
Áður var hann afar beitt
og eitruð nöðrutunga
en fékk svo völd og við það eitt
varð hann drusla og gunga.