F orstjóri Fjármálaeftirlitsins greindi frá því í gær að eftirlitið hefði vísað fjölda mála til sérstaks saksóknara, vegna sterks gruns um umfangsmikil lögbrot í rekstri á liðnum árum. Þá væri fjöldi mála til rannsóknar enn hjá eftirlitinu og væru sum svo umfangsmikil að rannsókn þeirra myndi standa út árið og fram á næsta. Væru menn grunaðir um allskyns lögbrot, sagði forstjórinn, og taldi síðan fjölmörg upp.
Þetta er merkilegt. Þrátt fyrir að bloggarar og jafnvel sumir stjórnmálamenn hafi margbent á að hér hafi engar reglur gilt í viðskiptalífinu, þá virðst bæði fjármálaeftirlit og sérstakur saksóknari þvert á móti halda að í raun hafi gilt umfangsmiklar reglur, sem einhverjir menn hafi brotið svo mjög að varði ákæru. Ætli fjármálaeftirlitið og saksóknari lesi bara ekki bloggsíðurnar?
Þ ó viðskiptabankarnir hafi komist í þrot, Steingrímur og Jóhanna komist til valda, skattar síðan verið snarhækkaðir og atvinnuleysi aukist jafnt og þétt, þá er það ekki svo að allt sé Íslandi mótdrægt. Á dögunum var Herdís Þorgeirsdóttir laganemi kosinn forseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga og er það gríðarlegt framfaraskref fyrir land og þjóð og enda þetta hin merkustu samtök. Morgunblaðið sagði vitanlega frá þessu stóra stökki og bætti því við til fróðleiks að samtökin væru „samstarfsvettvangur kvenlögfræðinga í Evrópu en markmið samtakanna er að hafa áhrif á löggjöf og stjórnmál í aðildarríkjum Evrópusambandsins og EES-ríkjunum á grundvelli jafnréttis kynjanna.“
Í samtökunum, sem vinna að því að hafa áhrif á bæði löggjöf og stjórnmál í Evrópu „á grundvelli jafnréttis kynjanna“, mega aðeins konur vera.
Á heimasíðu sinni fjallar Björn Bjarnason nýlega um bækur sem hann hafði nýlesið. Um hina áhrifamiklu Nótt, sem fæst í bóksölu Andríkis, segir hann
Þá las ég bókina Nótt eftir friðar Nóbelsverðlaunahafann Elie Wiesel, sem bjargaðist úr helbúðum nasista í Auswitz og Buchenwald í síðari heimsstyrjöldinni. Hef ég farið um báðar þessar útrýmingarbúðir. Þar má sjá umgjörð hinnar óskaplegu grimmdar, sem Wiesel lýsir. Stefán Einar Stefánsson þýðir bókina .Textinn er áhrifamikill í einfaldleika sínum. Athygli lesandans hverfur aldrei frá reynslu unglings af helförinni. Bókafélagðið Ugla gaf Nóttina út fyrr á þessu ári. Hún ætti að vera skylduefni allra ungmenna. |
Eins og Björn segir er Nótt ákaflega áhrifamikil bók sem fjallar um atburði sem aldrei mega gleymast. Nýjar kynslóðir þurfa að vita hvernig venjulegt fólk getur breyst í drápsvélar þegar búið að er kynda nægilega undir hatri þess á öðrum. Ofan á rótgróna andúð á gyðingum bættist samfelldur áróður um að ófarir þýsku þjóðarinnar væru þeim að kenna, og þegar búið var að eitra hug nægilega margra nægilega lengi var kominn grundvöllur einhverra skelfilegustu atburða sem orðið hafa af mannavöldum. Á skrumöldinni er sjaldgæft að hugtakið skyldulesning sé notað um rit sem í raun er vandað og sígilt. Nótt er hins vegar rit sem allir ættu að eiga og lesa