Mánudagur 6. júlí 2009

187. tbl. 13. árg.

E ins og hér hefur verið bent á  oftar en einu sinni og oftar en fimm sinnum, þá hefur ekki einn einasti ljósvakafréttamaður sýnt nokkurn minnsta áhuga á því að Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra viðist hafa farið með vísvitandi ósannindi í opinberri yfirlýsingu. En um helgina vöknuðu rannsóknarfréttamennirnir af þeim dvala sem þeir hafa legið í nær óslitið frá því þeir mættu á landsfund Sjálfstæðisflokksins og fullyrtu í einum kór að Davíð Oddsson hefði líkt sér við Krist. Um helgina voru allir sem vettlingi gátu valdið settir í að reyna að finna út að Davið væri í mótsögn við sjálfan sig í einhverju sem hann segði í viðtali við Morgunblaðið. Bara einhverju. Strax og viðtalið birtist reið Björn Malmquist á vaðið hjá Ríkissjónvarpinu með sérstaka „frétt“ um að Davíð hefði sem seðlabankastjóri skrifað undir tilkynningu stjórnvalda um samstarf við alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem fæli í sér ábyrgð á margumræddum tryggingasjóði. En Björn sleppti hins vegar því grundvallaratriði, sem kom raunar fram í viðtalinu við Davíð, að hann skrifaði auðvitað undir bréfið vegna seðlabankahluta þess, en ekki vegna ábyrgða á tryggingasjóðnum, sem kemur seðlabankanum ekkert við. Var Björn reyndar svo snöggur að bera fram þennan samsetning sinn, að hann kannski upplýsir einhvern daginn hvaðan honum barst hugmyndin að honum.

Svona voru helgarfréttatímarnir. Á laugardaginn stutt frétt um það hvað Davíð sagði, á eftir endurtekinni frétt um deilur um tölvupóst fyrrverandi starfsmanna EJS, sem var auðvitað fyrsta frétt Ríkissjónvarpsins, og síðan voru menn sendir á stað. Steingrímur J. Sigfússon fékk svo auðvitað gagnrýnislaus viðtöl daginn eftir þar sem hann bar ekki fram nein efnisleg rök við því sem kom fram í viðtalinu við Davíð.

Allar varnir Steingríms snerust um Davíð sjálfan; að Davíð ætti að vera „hættur í pólitík“, að hann ætti ekki að tala svona, að hann bæri sjálfur ábyrgð á öllu illu, að hann hefði sagt eitthvað annað einhvern tíma áður – og við slík „svör“ þótti fréttamanni Ríkisútvarpsins nú ekki tilefni til að gera athugasemdir eða leggjast í rannsóknir, enda þarna bara á ferð fjármálaráðherra sem vill að skattgreiðendur taki á sig stærstu fjárskuldbindingu Íslandssögunnar. Slíkur maður þarf ekki aðhald, eins og til dæmis fyrrverandi seðlabankastjórar þurfa.

En ekkert af þessu var svar við því sem fram kom í viðtalinu, þó fréttamaðurinn hafi auðvitað ekki haft nokkurn minnsta áhuga á þeirri augljósu staðreynd. Augljós spurning hefði til dæmis verið: En Steingrímur, hverju myndirðu svara einhverjum öðrum sem segði þetta sama? En þetta dettur hvorki fréttamanni né fréttastjóra að spyrja fjármálaráðherrann um. Á þeim bæjum snýst allt um að reyna að sanna að fyrrverandi seðlabankastjóri hafi orðið tvísaga. Fjármálaráðherra má auðvitað gapa gagnrýnislaust eins lengi og hann vill fyrir „fréttastofu“ Ríkissjónvarpsins.

Ef Vefþjóðviljinn eða einhver annar myndi gera öll orð Davíðs í viðtalinu að sínum, hvernig myndi Steingrímur J. Sigfússon svara þeim? Ætli Ísland muni einhvern tíma eignast fréttamann sem spyr svo augljósrar spurningar?

En ef svo augljósrar spurningar er ekki spurt, hvort er það þá af því að fréttamenn og fréttastjóra skortir hugsun eða vilja til að spyrja hennar?