L ítil frétt úr Morgunblaðinu fyrr í þessari viku. Hún er um kreppuna á Spáni og þá þrautalendingu spönsku kratastjórnarinnar að borga erlendum farandverkamönnum sérstaklega fyrir að koma sér úr landi og til síns heima.
[Farandverkafólk] er nú margt á förum og fær raunar borgað fyrir það svo fremi sem það lofi að koma ekki aftur til Spánar á næstu þremur árum. Uppgangurinn hefur verið mikill á Spáni á síðustu árum og fasteignabólan stærri þar en í öðrum ESB-ríkjum. Nú er hún hvellsprungin og atvinnuleysið komið í tæp 17%, það mesta innan ESB. |
Hvernig væri nú að Samfylkingin og fréttamenn hennar gaukuðu að félögum sínum á Spáni þeim þjóðráðum sem þau, en aðrir ekki, vita að koma jafnan í veg fyrir kreppu og atvinnuleysi: Ganga í Evrópusambandið, taka upp evru og reka seðlabankastjóra.
Já reka seðlabankastjóra. Þegar Samfylkingin tók það verkefni að sér í ársbyrjun var notuð sú ástæða að það væri sko nauðsynlegt til að „endurheimta traust Íslands erlendis“. Hefur nokkur einasti fréttamaður, sem þó höfðu mikinn áhuga á framgangi þessa máls í vetur, spurst fyrir um það hvort traustið á Íslandi hafi ekki einmitt rokið upp við mannaskipti í seðlabankanum? Þau áttu líka að skipta miklu máli fyrir gengi krónunnar. Það hefur lækkað nær samfellt síðustu mánuði.
Enginn fréttamaður nefnir nokkru sinni, að Már Guðmundsson, sem Jóhanna Sigurðardóttir segist hafa skipað seðlabankastjóra, er fyrrverandi hægri hönd Ólafs Ragnars Grímssonar úr farsælli fjármálaráðherratíð hans. Er vel við hæfi að vinstristjórnin leiði nú hægri hönd útrásarforsetans, mannsins sem sá um myndun minnihlutastjórnar vinstriflokkanna, þvert á stjórnskipunarhefðir, inn í seðlabankann. Annað vígorð vinstrimanna í vetur var nefnilega að „peningamálastefna Seðlabankans“ hefði „brugðist“. Höfundur hennar er einmitt Már Guðmundsson. Eins og fréttamenn munu auðvitað taka fram einhvern daginn.