Í gær vakti Vefþjóðviljinn athygli á því hvernig fréttastofa Ríkissjónvarpsins hafði leikið sér að því kvöldið áður að gefa ranga mynd af skoðunum alþjóðagjaldeyrissjóðsins á hugsanlegu Icesave-„samkomulagi“ og lánasamningum Íslands og annarra Norðurlandaríkja. En fjölmiðlar eru einfaldlega í herferð þessi misserin, og ekki er Morgunblaðið þeirra best. Örlítið dæmi: Sama dag og fréttamenn Ríkissjónvarpsins sýndu hugkvæmni sína í þýðingum buðu þeir í Hádegismóum upp á frétt um Svía og evrur. Fréttin hófst svo: „Þeim Svíum sem vilja skipta sænsku krónunni út fyrir evruna fer ört fjölgandi. Í nýrri skoðanakönnun kemur fram að ef gengið yrði til kosninga í dag myndu 43% hafna evru og 42% fagna henni en 15% hafa ekki gert upp hug sinn.“
Gott og vel, ekki munar miklu á fylkingunum, en fleiri Svíar vilja samkvæmt þessu krónuna en evruna. Og hvaða fyrirsögn ætli vígamennirnir í Hádegismóum velji nú, vitandi það að fjölmargir lesa fyrirsögn margra frétta en meginmál fárra? Jú, fyrirsögnin: „Svíar renna hýru auga til evru“.
Auðvitað er þetta bara örlítið dæmi og ekki alvarlegt. Meira sett hér fram til gamans og til marks um hugsunarháttinn í Hádegismóunum. Morgunblaðið hefur verið í miklum ham undanfarið ár og hamast fyrir Evrópusambandi, Icesave-samningum, evru og Samfylkingu. Sérstaklega hefur það færst í aukana allra síðustu mánuði og er ekki vafi á að það var Samfylkingunni mjög hjálplegt en Sjálfstæðisflokknum beinlínis afar mótdrægt í síðustu alþingiskosningum, líklega í fyrsta sinn í sögu sinni.
En kannski er þetta ekki dæmi um slagsíðuna í Hádegismóum heldur einungis um að þar viti menn hvaða Svíar það eru sem vilja evru. Það séu þá fyrst og fremst gestir í gamlárspartíi Baggalúts, þar sem í boði eru „freyðivín og fagrar meyjar, flennihýrir sænskir peyjar“.
J á, fjölmiðlarnir. Enn hafa hinir hefðbundnu fjölmiðlar engan áhuga sýnt á því að svo virðist sem Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra hafi farið með vísvitandi ósannindi í opinberri yfirlýsingu. Hér hafa netmiðlar staðið sig betur, en eins og Vefþjóðviljinn tók fram, fyrst er hann minntist á málið, höfðu þá vefsíðurnar amx.is og þar áður pressan.is fjallað um það, og einkum hafði hinn síðarnefndi gert því verðskulduð skil.