A thyglisverð frétt birtist í Morgunblaðinu í gær, þó blaðið hafi auðvitað gætt þess að láta eins og það tæki ekki eftir því sem mestu skipti í henni. Fréttin var um bréf sem þáverandi bankastjórar Landsbankans hefðu skrifað um hugsanlega ábyrgð íslenska ríkisins á Icesave-reikningum í Hollandi. En bréf þeirra skiptir litlu máli. Það sem skipti máli í fréttinni var þetta:
Bréfið var sent til að bregðast við kröfum DNB [seðlabanka Hollands] um að stöðva innlánasöfnun Landsbankans í gegnum Icesave-reikningana í landinu vegna áhyggna þarlendra stjórnvalda á getu hins íslenska Tryggingasjóðs innstæðueigenda til að standa við lágmarksinnstæðutryggingar og almennum áhyggjum þeirra af stöðu íslensks efnahagslífs. |
Já einmitt það. Og þá er spurningin sem Morgunblaðið spyr að sjálfsögðu ekki: Af hverju hafði seðlabanki Hollands svona miklar áhyggjur af stöðu Tryggingasjóðsins, ef það er nú rétt sem Samfylkingin og Gordon Brown heimta, að íslenska ríkið beri raun ábyrgð á Icesave-skuldbindingunum en ekki einfaldlega Tryggingasjóðurinn með sínum innistæðum?
En Morgunblaðið gætir þess að vekja ekki athygli á þessu, enda kæmi það sér ekki vel í Icesave-ESB-herferð þess og Samfylkingarinnar.
A nnar fjölmiðill í Icesave herferð er svonefnd fréttastofa Ríkisútvarpsins. Lítið dæmi um vinnubrögðin þar, er frá í gærkvöldi. Þar var viðtal við fulltrúa alþjóðagjaldeyrissjóðinn ítrekað kynnt með orðunum: „Samningur um Icesave er forsenda þess að norrænir seðlabankar veiti Íslendingum lán. Þetta er mat fulltrúa alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi.“ En hvað sagði svo maðurinn þegar hann komst sjálfur að til að svara um tengsl Icesave-samningsins við norrænu lánin? Jú hann sagði þetta: „We are not aware of any direct links but we understand that completing Icesave would facilitate the conclusion of these loans.“ Eða með öðrum orðum: Við vitum ekki um nein bein tengsl en okkur skilst að það að ljúka Icesave-málinu myndi greiða fyrir afgreiðslu þessara lána.
Og beri menn þetta nú saman við ítrekaða kynningu „fréttastofunnar“: „Samningur um Icesave er forsenda þess að norrænir seðlabankar veiti Íslendingum lán. Þetta er mat fulltrúa alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi.“
H vernig stendur á því að einhverjar vínarbrauðaætur sem kalla sig „aðila vinnumarkaðarins“ sitja frá morgni til kvölds að semja „stöðugleikasáttmála“, án þess að þar sé minnst einu orði á hugsanlegan Icesave-samning, og áhrif hans á íslenskt efnahagslíf?