Þ að er fyrst þegar á reynir sem í ljós kemur hversu miklir bógar menn eru. Fyrr í vetur kom skýrlega í ljós hversu mikið er spunnið í þingmenn Samfylkingarinnar, þegar þeir létu pottaglamur og skræki á Austurvelli hræða sig úr ríkisstjórn. Á einni nótt breyttust hinir útrásar-elskandi hægri kratar í lopapeysu-sósíalista. Demókrasían í sósíal-demókrötunum var ekki lengi að víkja fyrir sósíalnum. Því til áréttingar var vinstrisinnaðasti meðlimur þingflokksins dubbaður upp og gerður að forsætisráðherra.
Fleiri mannabreytingar voru gerðar í þágu skoðanakannana: Fráfarandi ráðherrar, svo sem utanríkis- og viðskiptaráðherrar, voru þegjandi lagðir til hliðar, tilbúnir til að vippa fram þegar kannanir munu gefa í skyn að þau geti aftur komist í tísku. Eftir ítarlegar rannsóknir Gallup og félagsvísindadeildar kom hins vegar babb í bátinn: Niðurstöður sýndu svart á hvítu að það yrði pólitískt glapræði að taka að sér embætti dómsmálaráðherra eða viðskiptaráðherra. Ráðgjafar auglýsingadeildar Fylkingarinnar sammæltust um að ekkert jákvætt yrði hægt að spinna upp úr þessum ráðuneytum á næstunni.
Nú voru góð ráð dýr.
En spunameistararnir voru ekki lengi að leiða fram snjallræði að lausn á vandanum: Efla lýðræðið! Og hvurnig þá? Jú, með því að kalla fagmenn úr röðum almennings, fólk með þekkingu á málunum, til að sinna þessum embættum. Almenningur hlyti að sjá að meiri fórn gætu jú þingmennirnir ekki fært. Þeir væru með þessu beinlínis að gefa eftir stóla. Ráðherrastóla. Þessari ótrúlegu stórmennsku og mildi hlyti að verða fagnað um land allt.
Fyrst um sinn varð ekki séð að þessi hræðsla nýrra stjórnarflokka við að taka að sér óvinsæl verk hefðu miklar afleiðingar í raun. Viðskiptaráðherra lét frá sér fara jafnvel enn glannalegri og furðulegri yfirlýsingar og fyrri viðskiptaráðherra og dómsmálaráðherrann virtist einfaldlega ætla að halda áfram þeim verkum sem fyrri ráðherra hafði lagt upp með.
En eftir því sem frá líður kemur betur í ljós hvað embættismannaræði er skeinuhætt lýðræðinu: Það kýs enginn þetta fólk og það ber enga pólitíska ábyrgð á störfum sínum. Það má því segja að það sé ekki nema eðlilegt að þessir sérfræðingar þjáist af ákvörðunarfælni, enda með ekkert pólitískt bakland hjá kjósendum til að hafa hliðsjón af við ákvarðanir sínar. Að vísu hefur þetta lítt hamlað viðskiptaráðherranum glaðbeitta, sem virðist með hverjum deginum eiga betur og betur heima í öðrum stjórnarflokknum. Gott ef hann er ekki farinn að líkjast flokksbróður sínum, utanríkisráðherranum, í háttum.
Dómsmálaráðherra þjóðarinnar virðist hins vegar tregari til að ana út í hinn pólitíska leik, að því er virðist af því að hann áttar sig betur á því að skoðanir hans eru í pólitísku tilliti ekkert annað en nákvæmlega það, hans skoðanir. Hann getur ekkert tilkall gert til þess að þær ákvarðanir sem hann tekur og sú stefna sem hann markar sé í einhverjum skilningi runninn frá kjósendum, eða einu sinni einhverjum hluta þeirra. Þannig að þessa í stað hefur ráðherrann ákveðið að láta af öllu stefnumörkunartali og leita einfaldlega einhverra annarra til að marka stefnuna fyrir sig. Hingað til hefur þar einkum komið til það sem efst er á baugi á fundi ráðherra í ríkisstjórninni, nú eða það sem forsætisráðherra missir út úr sér þann daginn.
Nýlega hefur hins vegar jafnvel enn háværari rödd fengið að óma í lúðrum íslenskra fjölmiðla, rödd hins skapstóra norsk-franska stjórnmálamanns, Evu Joly, sem jafnan fær virðingartitilinn „rannsóknardómari“ þegar skoðanabræður hennar í íslenskum fjölmiðlum skrúfa frá henni. Frú Joly hefur verið ófeimin við að tjá sig um það í íslensku samfélagi sem henni hefur dottið í hug og hefur þar ekki dregið af í skömmum sínum og áburði á Íslendinga og fyrirtæki þeirra um ýmiss konar siðleysi og refsiverð afbrot. Nú nýverið hefur hún ákveðið að beina byssum sínum að hinum og þessum embættismönnum, þar á meðal ríkissaksóknara.
Nú mætti ætla að dómsmálaráðherra myndi láta sér fátt um finnast þó þingmaður norska Verkamannaflokksins ætlaði að fara að leggja Íslendingum lífsreglurnar um hverjir skuli og skuli ekki skipa embætti í stjórnsýslunni á Íslandi. Það mætti jafnvel búast við að dómsmálaráðherra, þ.e. íslenskur dómsmálaráðherra, myndi taka slíkan vaðal óstinnt upp. En ekki baklandslausi dómsmálaráðherrann núverandi.
Ekki fyrrverandi ráðuneytisstjórinn. Nei, hann var ekki lengi að hlaupa til og boða að farið yrði í einu og öllu að því sem hinn norski stjórnmálamaður heimtaði, enda hafði frú Joly jú hótað að hætta afskiptum sínum ef ekki yrði farið að kröfum hennar og það strax: Ég var nú komin á leið með það að leggja til breytingar um það að það væri unnt að setja sérstakan ríkissaksóknara yfir málaflokkinn. En ég heyrði það í gærkvöldi að það er eitthvað sem að Evu Joly hugnast ekki. Þannig að það þarf ég að skoða betur. Og við eigum fund núna síðdegis þar sem við förum yfir það hvernig þessi mál líta út frá hennar sjónarhóli svona meira tæknilega.
Það er orðið umhugsunarefni hvernig norskir vinstrimenn hafa komist hér til valda.