M enn eiga misjafnlega auðvelt með að greina aðalatriði frá aukaatriðum. Skýrt dæmi um það, er hversu sumum reynist erfitt að átta sig á aðalatriði þess máls er snýst um opinberar yfirlýsingar nefndarmanns í rannsóknarnefnd alþingis á bankahruninu.
Það mál er í raun ákaflega einfalt. Nefndarmaðurinn hefur uppi persónulegar kenningar um það hverjar hafi verið raunverulegar ástæður bankahrunsins – sem nefndinni er einmitt ætlað að komast til botns í – í viðtali sem birt er opinberlega, löngu löngu áður en nefndin lýkur störfum.
Þetta er aðalatriði málsins: Getur nefndarmaður, sem búinn er að lýsa opinberlega skoðun sinni á því hver eigi að verða niðurstaða nefndarinnar, unnið áfram í nefndinni og skilað trúverðugri niðurstöðu, sem á auðvitað að vera byggð á því sem fram hefur komið við vinnu nefndarinnar, en ekki fyrirfram gefnum skoðunum?
Svarið við þeirri spurningu blasir við.
Engu að síður tekst sumum að sjá ekki svarið. Sumir missa líklega af svarinu vegna þess að þeir eru sammála nefndarmanninum um ástæður bankahrunsins. En þá ættu þeir að spyrja sig: Hvað ef nefndarmaðurinn hefði lýst þveröfugri niðurstöðu; að ástæðan væri, þvert á það sem margir héldu, einhver allt önnur? Ætli þeim dytti í hug að nefndarmaðurinn gæti setið áfram?
Svari þeir nú: Ef rannsóknarnefndarmaður segði í opinberu viðtali að í raun væri það svo, að þrátt fyrir að sumir héldu að opinbert eftirlit hefði brugðist, þá hefði eftirlitið verið mjög gott og sérstaklega hefði verið unnið faglega hjá Fjármálaeftirlitinu – gæti hann þá setið áfram í nefndinni og yrði niðurstaða hans trúverðug? Tryði einhver því að niðurstaða nefndarinnar væri fengin af upplýsingum úr rannsókninni en hefði ekki verið fyrirfram ákveðin?
Þegar nú til viðbótar hefur komið á daginn, að einn af orðstærstu hagfræðingum landsins, sem í vetur var afar vinsæll álitsgjafi annarrar ljósvakafréttastofunnar, er persónulegur ráðgjafi sama nefndarmanns, og að sami hagfræðingur skrifar blaðagrein til að verja áframhaldandi setu nefndarmannsins, en án þess að segja frá tengslum sínum við nefndarmanninn, þá verður enn furðulegra en ella að svarið við vanhæfisspurningunni vefjist fyrir mönnum.
En vissulega er skiljanlegt að einn hópur vilji halda nefndarmanninum í nefndinni. Ef einhverjir telja mikilvægt að niðurstöður nefndarinnar verði ótrúverðugar og að engu hafandi, þá eru auðvitað fá ráð betri til þess en að nefndarmaðurinn sitji áfram. Þá er björninn eiginlega unninn.
Svipuð sjónarmið eiga að vissu leyti við um störf hins erlenda ráðgjafa hins sérstaka saksóknara, og störf tengiliðar ráðgjafans. En þar verður þó að hafa í huga að hvorki ráðgjafinn né tengiliður hans hafa opinbert hlutverk. En að því sögðu, þá ættu þeir, sem virðast ætla að standa með ráðgjafanum, hvað sem á dynur, að svara því hvort ráðgjafinn og aðstoðarmaðurinn hefðu orðið vanhæfir til starfa ef þeir hefðu lýst þveröfugum sjónarmiðum. Ef sérstakur saksóknari hefði fengið ráðgjafa, sem hefði marglýst því yfir að hér væru greinilega stundaðar nornaveiðar gegn valinkunnum viðskiptamönnum, hefði einhverjum álitsgjafa þótt koma til álita að ráðgjafinn yrði áfram við störf?
Hér verða menn að svara grundvallarspurningunni, hvort opinber yfirlýsing um væntanlega niðurstöðu geri eða geri menn ekki vanhæfa. Menn mega ekki láta það ráða svari sínu, hvort þeir eru sammála gaspraranum eða ekki.
Þeir sem telja nefndarmanninn, sem búinn er að lýsa niðurstöðu sinni opinberlega, geta setið áfram í nefndinni, þeir ættu að velta fyrir sér viðbrögðum sínum ef hinir nefndarmennirnir tveir hefðu komið fram í viðtali og sagt að skoðun þess þriðja væri tómt rugl. Hefðu þeir mátt sitja áfram í nefndinni? Og, ef þeir hefðu ekki mátt það, hvernig stendur þá á því að það virðist þurfa að ræða það hvort þriðji nefndarmaðurinn verður að víkja?