Helgarsprokið 7. júní 2009

158. tbl. 13. árg.

V efþjóðviljinn hefur oft kvartað yfir því hversu hlutdrægar fréttastofur ljósvakamiðlanna eru þegar kemur að áherslum í fréttum. Tökum mjög nýlegt og lýsandi dæmi um mál sem þeir sýna engan áhuga – en myndu vissulega gera ef einhver annar ætti í hlut.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins vekur Andrés Magnússon í fjölmiðlapistli sínum athygli á merkilegu máli, sem flestir aðrir fjölmiðlar virðast enn staðráðnir í að þegja um. Þannig vildi til að blaðamaður erlends stórblaðs hafði það eftir Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra Íslands að íslensku bankarnir hefðu hagað sér þannig að hann teldi líklegt að einhverjir stjórnendur bankanna myndu lenda í fangelsi.

Þegar þetta hafði birst hjá hinu erlenda blaði sendi Gylfi Magnússon frá sér yfirlýsingu og kvaðst aldrei hafa sagt neitt í þessa veru, hann hefði aðeins sagt að hann hefði talið að einhverjir yrðu dregnir til ábyrgðar vegna bankahrunsins. Frá þessu hafa einnig sagt vefirnir amx.is og þar áður pressan.is, og á þeim fyrrnefnda er birt yfirlýsing sem Gylfi Magnússon sendi frá sér:

Ég hef aldrei gengið svo langt að fullyrða eða ýja að því að æðstu stjórnendur íslenskra bankanna fyrir hrun verði fangelsaðir vegna gerða þeirra í aðdraganda hrunsins. Ég vil engu spá um það. Hitt hef ég sagt að ég telji næsta víst að rannsókn á málefnum íslensku bankanna á þessum tíma muni sýna fram á að lög voru brotin í einhverjum tilfellum

Gylfi fullyrðir sérstaklega í yfirlýsingu til Íslendinga að hann hafi „aldrei“ einu sinni ýjað að því að bankamenn yrðu fangelsaðir vegna gerða sinna. Svo óheppilega vill þó til fyrir Gylfa – en ekki fyrir þegna hans – að blaðamaðurinn sem tók viðtalið við Gylfa, átti það á segulbandi. Orðaskipti þeirra um þetta efni fóru þar svona fram:

John Rolfe: „And if you were betting, do you think that people will go to jail?“
Gylfi Magnússon: „I would be very surprised if all this was wrapped up without something like that happening.“

Hvernig halda menn að fréttastofur ljósvakamiðlanna létu ef einhverjir aðrir stjórnmálamenn ættu í hlut? Ætli þetta yrði spilað aftur og aftur í fréttum? Ætli kastljós Ríkissjónvarpsins teldi þetta eiga erindi við áhorfendur? Ætli ekki aðeins Gylfi heldur líka þingmennirnir sem bera ábyrgð á hinum ókosna ráðherra yrðu spurðir um ábyrgð ráðherra sem sendi frá sér vísvitandi ósannindi í opinberum yfirlýsingum?

Hvaða líkur eru á að þá yrði alger þögn um málið?

Og álitsgjafarnir, ætli þeir teldu þetta eiga erindi við almenning?

Ætli álitsgjöfum þætti þetta sýna hversu rotnir stjórnmálamenn væru og hversu mikilvægt það væri að fá ópólitíska „fagmenn“ í ráðherrastörfin?