Miðvikudagur 3. júní 2009

154. tbl. 13. árg.

S agt var frá því í fréttum í gær að meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur hefðu framið þann glæp að velja eingöngu karlmenn fyrir sína hönd þegar kosið var í borgarráð. Haft var eftir Björk Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, að þeir ættu þegar í stað að bæta úr þessu.

Fjölmiðlar, að ekki sé talað um Björk Vilhelmsdóttur, höfðu ekki eins miklar áhyggjur fyrir viku þegar þingflokkarnir á alþingi tóku sig saman, að því er virðist, og kusu eingöngu konur í forsætisnefnd alþingis. Merkilegt að fréttamenn sem sjá ástæðu til að hafa áskorun sem þessa eftir stjórnmálamanni eins og Björk Vilhelmsdóttur, láti sér ekki detta í hug að spyrja hana hvort þingmenn ættu að kjósa nýja forsætisnefnd.

Hvaða máli skiptir eiginlega hvort einstaklingur í borgarráði er karlmaður eða kona? Enginn veltir fyrir sér hvort verið geti að fulltrúar í nefndum geti verið líkir að einhverju öðru leyti en þegar kemur að kynferði. Enginn spyr hvort verið geti að fulltrúar í einhverjum nefndum séu á svipuðum aldri, með svipaða menntun, bakgrunn eða áhugamál. En það er víst óskaplega mikilvægt að telja kynjahlutföll hvar sem er.

En meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn hafa gert fleira af sér. Þeir hafa til dæmis eingöngu kosið konu sem borgarstjóra. Ættu þeir kannski, samkvæmt kenningu Bjarkar Vilhelmsdóttur, að skipta um borgarstjóra af og til, svo réttum kynjahlutföllum verði náð?

Væri ekki rétt að næst þegar fréttamenn eða aðrir reka upp kvein sín yfir ójöfnum kynjahlutföllum einhvers staðar, að þeir láti þá fylgja með hvers vegna nákvæmlega kynjahlutföllin, ein hlutfalla, mega ekki vera ójöfn þar?