E fnahagskreppan í heiminum hefur valdið því að ýmsir hafa misst fótanna. Sumir í efnahag sínum en aðrir í hugmyndaheimi sínum. Það er að minnsta kosti oft eins og kreppan hafi valdið því að hinn fjarstæðukenndasti málflutningur sé nú ítrekað borinn á borð fyrir fólk, í fullri alvöru að því er sýnist. Sumir halda því til dæmis fram að kapítalisminn hafi „brugðist“, jafnvel hrunið með sama hætti og kommúnisminn. Ýmsir eru farnir að leggja þetta tvennt að jöfnu; frelsi í viðskiptum, sem aukið hefur hagsæld og bætt lífskjör með áður óþekktum hætti, og svo kommúnismann. Aðrir telja fjármálakreppu Vesturlanda vera vísbendingu um að kommúnismi sé kannski bara hreint ekki svo ógeðfelld stefna þegar allt komi til alls. Meira að segja Hið íslenska bókmenntafélag lét sér sæma á dögunum að gefa Kommúnistaávarpið út, sem sérstakt lærdómsrit. Á persónulegum vefsíðum Íslendinga má nú stundum sjá hamar og sigð til skrauts, eins og ekkert sé sjálfsagðara.
Það er með ólíkindum að efnahagskreppa eins og sú sem nú gengur yfir, og sem fékk eldsneyti sitt að mestu leyti frá ríkisstofnunum eins og stærstu seðlabönkum Vesturlanda, verði til þess að opinber umræða berist að kommúnisma, eins og einhverjum sjálfsögðum umræðugrundvelli. En það er greinilega ekki vanþörf á að sumir kynni sér stuttlega hvernig kommúnisminn hefur reynst heimsbyggðinni undanfarna öld. Og til er ákaflega aðgengileg og skýr bók á íslensku um það skelfilega viðfangsefni.
Fyrir stuttu sýndi Ríkissjónvarpið vandaða íslenska heimildamynd um ógnir og ánauð sem steðjar að börnum í Kambódíu, því langhrjáða landi. En barnaánauð, svo skelfileg sem hún er, er ekki versta ógæfa sem hefur hent Kambódíu. Í hinni stórfróðlegu bók, Kommúnismanum, eftir Richard Pipes, sem lengi var prófessor í sagnfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, er fjallað um þau lönd sem bjuggu við kommúnisma um lengri eða skemmri tíma. Og eitt þeirra er Kambódía, þar sem kommúnistar, undir forystu Pols Pots, ríktu í 44 blóðuga mánuði á áttunda áratug síðustu aldar.
Þegar liðsmenn Pols Pots náðu völdum, tóku þeir strax til óspilltra mála við að búa til nýja Kambódíu. Þeir sem grunaðir voru um að vera andvígir hinni nýju skipan, voru ofsóttir:
Allir opinberir starfsmenn og hermenn sem þjónuðu gömlu stjórninni, fyrrverandi landeigendur, kennarar, kaupmenn, búddamunkar og jafnvel iðnaðarmenn. Opinberlega var því lýst yfir að fólk í þessum stéttum hefði stöðu hinna lægst settu í samfélaginu og það var svipt öllum réttindum, þar á meðal rétti til matarskammta. Þetta fólk var ýmist skotið strax eða látið vinna nauðungarvinnu uns það örmagnaðist og datt niður dautt. Þetta fordæmda ógæfusama fólk myndaði, sennilega, meira en tvo-þriðju hluta þjóðarinnar. Það var handtekið með skipulögðum hætti, yfirheyrt og pyntað þangað til það varpaði sök á aðra og síðan var það tekið af lífi. Heilu fjölskyldurnar voru teknar af lífi í einu, þ. á m. lítil börn… Bændum var ekki hlíft. Þeir voru skikkaðir til „samvinnubúskapar“ að hætti Kínverja. Ríkið gerði upptæk öll matvæli sem þessar kommúnur framleiddu og komu þeim fyrir, rétt eins og í Egyptalandi á tímum faraóanna, í hofum og öðrum geymslum í ríkiseigu, þar sem þeim var úthlutað eftir geðþótta stjórnvalda. Þessar aðgerðir settu hefðbundið framleiðsluferli í sveitunum úr skorðum og afleiðingin var matarskortur sem á árunum 1978-1979, eftir óvenju mikla þurrka, skóp víðtæka hungursneyð. Drápin jukust eftir því sem kengra leið á mánuðina 44 sem Rauðu khmerarnir stjórnuðu Kambódíu. … Blóðtakan af þessum fjöldamorðum var óhugnanleg. Samkvæmt áreiðanlegum áætlunum var íbúafjöldi í Kambódíu 7,3 milljónir um það leyti sem Rauðu khmerarnir komust til valda árið 1975. Þegar Víetnamar tóku við valdataumunum árið 1978 hafði íbúum fækkað í 5,8 milljónir. Ef tekið er tillit til eðlilegrar fólksfjölgunar þessi fjögur ár hefði íbúafjöldinn átt að vera rúmlega 8 milljónir. Með öðrum orðum bar stjórn Pol Pots ábyrgð á dauða eða mannfækkun sem nam rúmlega tveimur milljónum kambódískra borgara en það svaraði til fjórðungs þjóðarinnar. |
Og hvernig brugðust önnur lönd við? Því svarar Pipes líka í bók sinni.
Rétt er að láta þess getið að hvergi í heiminum var efnt til mótmælafunda vegna þessara illvirkja og engar ályktanir voru samþykktar á þingum Sameinuðu þjóðanna til að fordæma þau. Umheimurinn lét eins og ekkert væri, væntanlega vegna þess að hroðaverkin voru unnin í nafni þess sem kallað var göfugur málstaður. |
Pol Pot og félagar hans stýrðu einni mestu grimmdarstjórn sem dæmi eru um í nútímanum. Þeir voru ekki byssuglaðir Bandaríkjamenn eða ólæsir villimenn. Þeir höfðu lært í háskólum Parísarborgar og setið þar við fótskör Sartres. Þegar þeir fengu aðstöðu til að umbylta heimalandi sínu hófust aðgerðir sem urðu áður en yfir lauk að einhverjum mestu hörmungum sem nokkru sinni hafa dunið yfir eina þjóð.
Kommúnisminn, eftir Richard Pipes, er ákaflega aðgengileg bók sem allir ættu að kynna sér. Hún fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar 1950 krónur og er heimsending innanlands innifalin í verðinu. Við erlendar pantanir bætist 600 króna sendingargjald.