K annski verður kreppan til þess að einhverjir skilji hvað er bogið við hugmyndir eins og „gjaldfrjálsan leikskóla“ og „frítt í strætó“. Það er ef til vill von til þess að menn skilji að hlutirnir eru ekki ókeypis þótt opinberir sjóðir greiði fyrir þá – nú þegar þessir opinberu sjóðir eru tómir.
Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur ákvað í gær að innheimta meira en málamyndagjald af foreldrum sem búa saman og vista börn sín meira en 8 klukkustundir á dag í leikskólunum. Það eru fáir foreldrar sem nýta svo mikla þjónustu og kostnaður af því að bjóða upp á hana er mjög mikill. Ef marka má viðbrögð vinstri flokkanna í borgarstjórn við þessari tillögu til að draga úr kostnaði borgarinnar er ekki líklegt að þeim muni ganga vel að stoppa í það 170 milljarða króna gat sem er að myndast á ríkissjóði. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður leikskólaráðs borgarinnar sýnir hins vegar öðrum stjórnmálamönnum gott fordæmi með þessari ákvörðun.
Stjórn Strætós bs. mun sömuleiðis hætta að bjóða námsmönnum „frítt í strætó“ eins og undanfarin ár. Jórunn Frímannsdóttir stjórnarformaður Strætó segir að námsmönnum sem nota strætó hafi ekki fjölgað þótt þeir hafi átt kost á fríum ferðum. Það var einmitt það sem Vefþjóðviljinn sagði á sínum tíma. Fargjöldin koma ekki í veg fyrir að menn noti strætisvagnana. Ókeypis strætó keppir ekki við einkabílinn sem flestir nota heldur miklu frekar við þann kost að ganga eða hjóla. Strætó er nú þegar það miklu ódýrari en einkabíllinn að þótt fargjöldin lækki niður í ekki neitt breytir það því dæmi ekki verulega. Það kostar nokkra tugi þúsunda á ári að nota strætó en mörg hundruð þúsund að algjöru lágmarki að reka bíl. Það er líklegra að „frítt í strætó“ höggvi skörð í hóp gangandi og hjólandi vegferenda en akandi. Það er því rétt ákvörðun hjá stjórn strætós leggja af en á sama hátt er það ótrúlegt að stjórnarformaðurinn skuli viðra hugmyndir um að ríkið taki þátt í að bæta fjárhag félagsins.