S jálfstæðisflokkurinn á afmæli í dag. Þeir sem vilja senda honum hamingjuóskir ættu að senda afrit á Samfylkinguna, því ekki getur liðið á löngu þar til Samfylkingin tilkynnir að hún eigi einmitt afmæli 25. maí. Eins og menn vita hefur Samfylkingin á undanförnum árum reynt að apa sem flest eftir Sjálfstæðisflokknum og engin ástæða að skilja afmælisdaginn þar eftir.
Eitt hefur Samfylkingin þó ekki apað eftir, og er það þó það eina sem ástæða væri fyrir hana að hugleiða. Undanfarna mánuði hefur Sjálfstæðisflokkurinn horft aðgerðalaus upp á tilraunir andstæðinga sinna til að ganga af flokknum dauðum. Undanfarin misseri hefur Sjálfstæðisflokkurinn vandlega forðast að bera hönd fyrir höfuð sér í nokkru máli, röngum ásökunum og fullyrðingum í garð flokksins eða einstakra forystumanna hans, núverandi eða fyrrverandi, er yfirleitt ekki svarað og aldrei af neinum minnsta krafti. Aðra flokka gagnrýnir Sjálfstæðisflokkurinn alls ekki, enda hefur flokkurinn um þessar mundir ekki annað markmið en að hlýða þeim andstæðingum sínum sem krefjast þess að flokkurinn „sýni auðmýkt“. Kosningastjórar í svonefndri kosningabaráttu flokksins í vor gættu þess að aðrir flokkar yrðu hvergi gagnrýndir og aðeins í norðvesturkjördæmi var ekki hlustað á grátstafinn úr Valhöll allt til loka.
Mánuðum saman hafa forystumenn og aðrir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins setið hnípnir og þegjandi undir fjarstæðukenndum áróðri þess efnis að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt landið í rúst, þegar staðreyndin er sú að lungann úr síðustu 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins og samstarfsflokka hans hverju sinni var uppgangur á Íslandi með lífskjarabót alls þorra manna, þó vissulega hefði verið stórum betra ef taumhald hefði verið haft á útgjaldaaukningu ríkisins og sveitarfélaga og betur skilið á milli fjármálakerfisins og ríkisins, svo mikilvægustu dæmin séu nefnd. Einstakir þingmenn, jafnvel trúnaðarmenn nýs formanns, virðast helst hugsa um það, þegar þeir koma fram opinberlega, að falla sjálfir í kramið, að verða sjálfir taldir mannlegir, umburðarlyndir og ótengdir Sjálfstæðisflokknum, og leggja þannig sitt af mörkum til þeirrar þagnar Sjálfstæðisflokksins sem festir nú sem óðast í sessi þann ósannindavaðal sem gengur upp úr álitsgjöfum og fréttamönnum vinstriflokkanna.
Og ekki hjálpar auðvitað að Morgunblaðið berst á hæl og hnakka fyrir Evrópusambandinu en þar á eftir alls kyns pólitískum rétttrúnaði. Morgunblaðið fagnar sérstaklega og reynir að ýta undir alls kyns óhróður sem að Sjálfstæðisflokknum og einstökum forystumönnum hans er beint. Það er einstök staða í íslenskum stjórnmálum, en auðvitað mega eigendur blaðsins nota blað sitt með þessum hætti fyrst þeir vilja.
Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki endurheimta fyrri stað sinn í íslenskum stjórnmálum fyrr en hann snýst til varnar, ber höfuðið hátt og hættir að taka við fyrirmælum andstæðinga sinna um það hvernig honum ber að haga sér. Þeir sem láta vinstrimenn segja sér hvað þeir mega og hvað ekki, þeir munu fljótt finna sig í þeirri stöðu að mega ekki neitt.