Helgarsprokið 10. maí 2009

130. tbl. 13. árg.

Þ

Jesús Huerta de Soto.

rátt fyrir að hafa notað aðra ríkismynt en íslensku krónuna frá aldamótum er atvinnuleysi á Spáni nú um 18%. Þótt pesetanum hafi verið skipt út fyrir evruna um árþúsundamótin kom það ekki í veg fyrir að fasteignabóla tútnaði út á Íberíuskaganum á undanförnum árum og heldur ekki að hún springi með hvelli. Milljón íbúðarhús standa nú tóm á Spáni.

Spænski hagfræðiprófessorinn Jesús Huerta de Soto hefur lýst því hvernig fasteignabólan myndaðist á Spáni í kjölfar upptöku evrunnar:
„Það má læra ýmislegt af ástandinu á Spáni. Efnahagur Spánar blómstraði að hluta vegna raunverulegra umbóta eins og aukins frelsis í stjórnartíð José María Aznar. Engu að síður átti innistæðulaus aukning peningamagns stóran þátt í uppsveiflunni. Aukning peningamagns á Spáni var nær þrefalt meiri en í Frakklandi og Þýskalandi. Þegar vextir lækkuðu á Spáni vegna þátttöku í myntsamstarfinu voru viðbrögðin eins og vænta mátti: mikið framboð af ódýrum peningum úr spænskum bönkum, einkum til að fjármagna spákaupmennsku á fasteignamarkaði. Þetta lánsfé bjuggu spænsku bankarnir til ex nihilo. Stjórnendur Seðlabanka Evrópu létu sem ekkert væri. Þegar verðbólga gerði vart við sig vék seðlabankinn hins vegar ekki frá stefnu sinni og lækkaði ekki vexti þótt ýmis ríki myntbandalagsins, eins og Spánn, standi nú frammi fyrir því að flestar fjárfestingar liðinna ára í húsnæði hafi verið byggðar á röngum forsendum. Við þessum ríkjum blasir löng og ströng leiðrétting og aðlögun að raunveruleikanum.“

Huerta de Soto er er prófessor í hagfræði við háskóla Juan Carlos konungs í Madrid á Spáni. Hann er höfundur bókarinnar Money, Bank Credit and Economic Cycles og síðasta sumar kom út bók hans The Austrian School: Market Order and Entrepreneurial Creativity og nú í vor ritgerðasafnið The Theory of Dynamic Efficiency sem spannar ýmis svið af sjónarhóli austurrísku hagfræðinnar. Huerta de Soto er sumsé einn af hinum svonefndu austurrísku hagfræðingunum og hefur gagnrýnt lausatök í peningamálum og seðlaprentunarvald ríkisins harðlega um árabil. Í umræðunni að undanförnu hafa menn því miður haft lítinn áhuga á raunverulegum ástæðum hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu; útlánaþenslunni sem á upptök sín í ríkisreknu peningakerfi heimsins, seðlabönkunum.

Um seðlabanka ríkisins, hvort sem þeir starfa í löndum með markaðsbúskap eins og Bandaríkjunum eða ríkjum með sósíalískara hagkerfi segir Huerta de Soto:

Þegar austurrísku hagfræðingarnir Ludwig von Mises og Friedrich A. Hayek leiddu rök að því að sósíalisminn gengi ekki upp efnahagslega má segja að þeir hafi um leið fellt dóm yfir seðlabönkum. Það á að sjálfsögðu einnig við Seðlabanka Bandaríkjanna, Alan Greenspan fyrrverandi bankastjóra og Ben Bernanke núverandi formann bankastjórnar. Samkvæmt rökum Mises og Hayeks er útilokað að skipuleggja efnahagsstarfsemi með miðstýringu þar sem stjórnkerfið nær aldrei að afla þeirrar þekkingar sem til þarf. Hayek kallaði það raunar „banvænan hégóma“ (e. fatal conceit) þegar menn trúa því að þeir séu svo almáttugir eða að minnsta kosti snjallir og öflugir að þeir geti fínstillt peningamálastefnuna. Í stað þess að Seðlabanki Bandaríkjanna og einnig að nokkru Seðlabanki Evrópu mildaðu sveiflurnar í efnahagslífinu hafa þeir að öllum líkindum búið þær til og magnað upp.

Vandinn sem blasir við Ben Bernanke og stjórn Seðlabanka Bandaríkjanna og öðrum seðlabönkum (ekki síst þeim evrópska) er því ekki auðleystur. Árum saman hafa þeir vanrækt skyldur sínar og eru nú komnir í öngstræti. Þeir eiga tvo kosti. Annars vegar geta þeir leyft leiðréttingu að eiga sér stað nú þegar. Þótt hún sé nauðsynleg verður hún ekki tekin út án sársauka. Hins vegar geta þeir reynt að framlengja veisluna sem er þó rót vandans. Fari þeir síðari leiðina er enn meiri hætta á kreppuverðbólgu þegar fram í sækir. (Þetta voru einmitt mistökin sem menn gerðu eftir hrun verðbréfamarkaða árið 1987. Þau mistök leiddu til verðbólgu við lok níunda áratugarins og niðursveiflu á árunum 1990 til 1992.)

Aukið framboð á ódýru fjármagni við þessar aðstæður myndi jafnframt koma í veg fyrir nauðsynlegt uppgjör á vonlausum fyrirtækjum og endurskipulagningu atvinnulífs miðað við raunhæfar forsendur. Það gæti framlengt kreppuna. Það gerðist einmitt í Japan þar sem svo oft var reynt að koma atvinnulífinu í gang með ódýru fjármagni og auknum ríkisútgjöldum að hætti Keynes að örvunin hætti að virka.

Það verður því að skoða nýjustu aðgerðir Seðlabanka Bandaríkjanna í því ljósi að stofnunin hefur tvö ósamrýmanleg markmið; að hemja verðbólgu og dæla peningum í fjármálakerfið sem lánveitandi til þrautarvara. Það má því segja að aðgerðir bankans séu eins og fálm í myrkri. Einn daginn bjargar hann AIG, Bear Sterns, Fannie Mae og Freddie Mac en daginn eftir lætur hann Lehman Brothers fara í þrot og réttlætir það með því að „setja þurfi fordæmi” og koma í veg fyrir siðferðilegt hrun eða freistnivanda. Loks tilkynntu yfirvöld svo að þau myndu kaupa óseljanlegar (verðlausar) eignir fjármálafyrirtækja fyrir allt að 700 milljarða dala. Ef fjármagna á þessa áætlun með sköttum (en ekki meiri verðbólgu) mun það þýða aukna skattbyrði á heimilin einmitt þegar þau mega síst við henni.

Það er staðreynd að óhemju mistök hafa verið gerð í fjárfestingum á undanförnum árum. Eins og Huerta de Soto segir eiga menn tvo kosti í stöðunni. Annars vegar geta menn horfst í augu við raunveruleikann og gert mistökin upp. Hins vegar geti menn haldið áfram að dæla ódýru lánsfé og beinum ríkisstyrkjum í þessi vonlausu verkefni. Síðari leiðin er í raun sú aðferð sem leiddi menn í vandann í upphafi.

Eins og menn þekkja hafa mörg ríki tekið þann kost að skuldsetja sig gríðarlega til að bjarga bönkum frá falli og halda hjólum atvinnulífsins gangandi eins og það er kallað. Huerta de Soto telur hins vegar að aðrar leiðir séu vænlegri út úr kreppunni:

Við þessar aðstæður er brýnt að losa um höft hvarvetna í hagkerfinu, ekki síst á vinnumarkaði. Þannig er von til þess að endurskipulagningin verði hröð og atvinnulífið snúi sér umyrðalaust að arðbærum rekstri. Á sama hátt er mikilvægt að draga úr útgjöldum hins opinbera og lækka skatta svo skuldug heimili og fyrirtæki geti greitt skuldir sínar eins fljótt og mögulegt er.

Heimili og ekki síst fyrirtæki geta aðeins bætt stöðu sína með því að lækka kostnað (sérstaklega launakostnað) og grynnka á skuldum. Sveigjanlegur vinnumarkaður og strangt aðhald í ríkisrekstri er nauðsynlegt í þessu sambandi. Þessir þættir eru forsenda þess að markaðurinn afhjúpi hratt og örugglega raunverulegt verðmæti framleiðslutækja, sem fjárfest var í sökum þenslu ódýrs lánsfjár, og lagður sé grunnur að heilbrigðum og varanlegum hagvexti í framtíðinni. Framtíð sem við hljótum að vona að sé á næstu grösum.