S koski sagnfræðingurinn Niall Ferguson gaf út fyrir nokkru nýja bók, The Ascent of Money, um sögu fjármála frá ítölsku endurreisninni til okkar kreppuþjáðu daga. Það er einmitt lausafjárkreppan sem er tilefni bókarinnar, sem er einnig til í formi sjónvarpsþátta, en höfundurinn segir hlutverk hennar að útskýra á aðgengilegan hátt bakgrunn og sögu fjármálaheimsins og hvers vegna hann er jafn óáreiðanlegur og ófyrirsjáanlegur og raun ber vitni.
Þó sagan sé rakin til Mesópótamíu er meira miðað við Ítalíu endurreisnarinnar, þar sem Medici-ættin átti stóran þátt í upphafi eiginlegrar bankastarfssemi. Ekki leið langur tími uns skuldabréf og skuldabréfamarkaðir litu dagsins ljós. Ítölsku smáríkin áttu oft í stríði hvert við annað og þessi stríðsrekstur var mun kostnaðarsamari en svo að skattheimta ein stæði undir því. Lausnin var útgáfa skuldabréfa.
Næsta stórstökk í þróun fjármálamarkaða var tilkoma hlutafélagsins, í Hollandi á sautjándu öld. Hlutafélög finnast um heim allan í dag og eiga það flest sameiginlegt að þau eru lögaðili með takmarkaða ábyrgð. Það þýðir að skuldbindingar hlutafélags lenda ávallt á hlutafélaginu sjálfu en ekki eigendum þess. Þessi nýjung auðveldaði Hollendingum að fjárfesta í Hollenska Austur-Indía félaginu, sem var stofnað til að brjóta á bak aftur einokun Spánverja og Portúgala í kryddversluninni milli Evrópu og Asíu. Sá böggull fylgdi þó skammrifi, þá sem nú, að þó svo fjárfestar í hlutafélögum ættu ekki á hættu að glata meiru en því sem þeir lögðu í félagið, það er það verð sem þeir greiða fyrir hlutabréfin, þá var vissulega engin trygging fyrir því að fjárfestingin bæri nokkra ávöxtun. Skipasiglingar fyrir Góðrarvonarhöfða eru enn þá áhættusamar, en töluvert meira svo í þá daga.
Í fjármálaheiminum er áhætta vitaskuld lykilhugtak. Hún er alltaf til staðar, því óháð því hversu upplýstir sem menn telja sig vera, þá er aldrei hægt að útiloka alla óvissu. Eðlilega reyna menn eftir bestu getu að lágmarka áhættuna og dreifa henni sem best þeir geta. Úr þeim jarðvegi spretta tryggingafélög og sömuleiðis hluti hugmyndarinnar á um velferðarríkið.
Svona rekur Ferguson þetta áfram; frá upphaf bankastarfsemi, tengsl stríðsrekstrar ítalskra ríkja við tilurð skuldabréfamarkaða, hlutafélög og hlutabréf, tryggingar, og áfram í vogun, sem á upphaf sitt að rekja til landbúnaðar, og afleiður, allt fram í þá fjármálagjörninga sem búa að baki undirmálalánunum, sem eru rótin að kreppu dagsins.
Það er margt annað áhugavert sem kemur við sögu. Meðal annars ótrúleg saga John Law, Skota sem flúði úr fangelsi eftir að hafa fellt mann í einvígi, faldi sig í Amsterdam og fór þaðan til Frakklands þar sem hann komst til lygilegra metorða innan stjórnsýslunnar. Á hápunkti ferilsins stjórnaði hann allri myntsláttu franska ríkisins, var yfirmaður allrar skattheimtu ríkisins, réði Louisiana nýlendunni í norður Ameríku, var yfir Mississippi félaginu sem átti einokunarrétt á innflutningi og sölu tóbaks í Frakklandi og réði þar að auki yfir allri verslun Frakklands við Afríku, Asíu og víðar.
Ferguson fer einnig yfir Kreppuna miklu og hvernig hún var að þarflausu framlengd með röngum viðbrögðum hins opinbera. Hann rekur einnig sorgleg örlög Argentínu; hvernig ríkisábyrgðir á bankainnstæðum ollu Saving & Loans fjármálahneykslinu, þar sem skattgreiðendur urðu að lokum að greiða 124 milljarða Bandaríkjadala tap þessara sparisjóða og í framhaldi af því fíaskói öllu heyrðist það fyrst, að besta aðferðin við að ræna banka sé að vera eigandi þeirra; hvernig Chile snerist, með raunar ofbeldisfullum hætti, frá þeim stöðnunarsósíalisma sem hrjáði alla suður Ameríku á þessum tíma til vestræns markaðsbúskaps og bjó í framhaldinu til lífeyrissjóðskerfi sem forðast þá pytti sem til dæmis Japan er nú djúpt sokkið í, það er að segja æ færri vinnandi hendur greiða fyrir æ fjölmennari hóp eldri borgara og hefur vafið þessa miklu iðnaðarþjóð skuldum.
Einna forvitnilegast er að lesa um hvernig Bandaríkin hafa á örfáum árum breyst úr því að vera lánardrottinn heimsins í það að vera helsti skuldari heimsins, þar sem borgararnir leggja í heildina séð varla nokkuð af tekjum sínum í sparnað. Á móti hefur Kína breyst í banka Bandaríkjanna. Í fyrsta sinn um aldir berast lánveitingar frá austri til vesturs, en ekki öfugt. Þrátt fyrir að árslaun meðal Bandaríkjamanns séu um það bil tvítugföld á við árslaun meðal Kínverja, þá spara Kínverjar sem aldrei fyrr og hafa lánað þennan sparnað til Bandaríkjamanna á eyðslutrippi, bæði sem einstaklingar og ríkisvald.
Sömuleiðis er mjög áhugavert að lesa um fasteignir og fasteignaviðskipti og þróun þeirra síðustu aldir. Það var einungis efnafólk sem átti fasteignir á öldum áður. Í hinu íhaldssama Englandi réði fast- og landareign manna pólitísku vægi þeirra og það er tiltölulega nýlega sem lokið var við að vinda algerlega ofan af því kerfi, en þó gerðist það um leið, nýlega sömuleiðis, að flestir landsmenn urðu reyndar samhliða fasteignaeigendur. Ein mesta breytingin átti sér einmitt stað í kreppunni miklu í Bandaríkjunum og víðar, en þá urðu fasteignalán mun aðgengilegri almenningi en áður var; vextir lágir og greiðslutími langur. Vestræn ríki einkennast af fasteignaeigendum í lýðræðisumhverfi. Ferguson telur ekki ólíklegt, að með því að gera fasteignakaup jafn auðveld og raun bar vitni, hafi Bandaríkjamenn fundið rétta mótefnið gegn byltingaröflunum, sem áttu óvenju greiða leið að eyrum Bandaríkjamanna í kreppunni miklu, þegar einn af hverjum fjórum vinnufærum mönnum mældi göturnar.
Ferguson setur einnig tilteknar efasemdir um þá kenningu Hernando de Soto, að skýrt skilgreindur eignarréttur fasteigna í hinum fátækari ríkjum heimsins komi til með að leysa úr læðingi dauða fjármagnið sem þar býr, því án þess er ekki hægt að nota fasteignina sem veð fyrir lánveitingu. Nota bene, Ferguson er þess fullviss að þessi skýrt skilgreindi eignarréttur sé nauðsynlegur – líkt og er augljóst í öllum vestrænum ríkjum – en einn og sér hefur hann ekki náð að tryggja að lánveitendur láni gegn veði í fasteign í þeim þróunarríkjum þar sem eignarhald hefur verið skýrt skilgreint. Eitthvað meira þarf til, en vel skilgreindur eignaréttur á fasteignum er samt sem áður nauðsyn.
Þá gerir hann tiltölulega nýlegt fyrirbæri að umræðuefni, örlánastarfsemina í þróunarríkjum, og þá staðreynd að konur, sem hafa verið taldar nær ólánshæfar um aldir og árþúsundir, reynast vera mjög traustir lántakendur. Örlánin eru líkt og nafnið gefur til kynna afar lítil lán, alltént á vestrænan mælikvarða, sem bera reyndar mjög háa vexti, eiginlega tæra okurvexti, enda er það óhjákvæmilega svo að umsýslukostnaður þessara örlána sé hlutfallslega hærri en stærri lána. Engu að síður greiða konurnar lánin sín samviskulega til baka og það án þess að lánveitendurnir hafi tekið veð í nokkrum sköpuðum hlut.
Rauði þráðurinn er að saga fjármálaheimsins er vörðuð miklum uppgangi en jafnframt geta alls kyns bólur myndast og sprungið með verulegum látum. Mannkynið mun seint geta komið í veg fyrir alla áhættu í fjármálum og nefnir hann ýmsar ástæður fyrir því. Meðal annars er það hin óhjákvæmilega óvissa með framtíðina. Mennirnir munu aldrei vera í þeirri stöðu að geta séð hana fyrir í einu og öllu. Í annan stað er mannlegt eðli þannig að ekki verður svo léttilega á það treyst. Hagnaðarvon og græðgi, áhættufælni, áhættusækni og ótti, svo fátt eitt sé nefnt, geta orðið allri skynsemi yfirsterkari og bæði blásið upp fáránlegustu bólur og leitt til óvæntra bankaáhlaupa, og allt þar á milli. Þeir lesendur sem kannast við kauða verða að líkindum ekki fyrir vonbrigðum með ritið, þó sú hugsun læðist ef til vill að lesendum að hún kunni að hafa verið gefin út hálfu eða heilu ári of snemma. Næsta útgáfa bókarinnar mun vafalítið taka tillit til alls þess sem gerst hefur síðasta misserið eða svo, og hvur veit nema verði þá minnst á nýlega atburði á Íslandi.