Laugardagur 2. maí 2009

122. tbl. 13. árg.

Á rið 2007 verður vafalítið lengi í minnum haft. Ekki að ástæðulausu. Menn höfðu skemmt sér vel og lengi en snemma árs 2006 héldu margir að veitingarnar væru búnar og ljósin voru kveikt í stutta stund. Þá kom í ljós, mörgum til mikils léttis, að ballið var rétt að byrja, náði hámarki 2007 og lauk ekki fyrr en síðla árs 2008.

Sjálfsagt verður margt skrifað um þetta merkilega ár 2007 og nú þegar er komin út fyrsta bókin á íslensku sem helguð er þessu umtalaða ári, nánar tiltekið hvernig fjölmiðlar stóðu sig í stykkinu það ár, Fjölmiðlar 2007 eftir Ólaf Teit Guðnason. Voru fjölmiðlarnir mjög 2007 samnefnt ár? Ein mælistika á það er ef til vill að það ár voru líklega gefin út 29 tölublöð í viku af Fréttablaðinu, Morgunblaðið, Blaðinu/24 stundum, DV og Viðskiptablaðinu. Nú hefur þessum vikulegu tölublöðum dagblaðanna fækkað um nær helming og ekki verður betur séð en tímaritin hafi farið sömu leið.

Blaðamenn hafa verið gagnrýndir nokkuð að undanförnu fyrir að upplýsa almenning ekki um efnahagsbóluna. En hvernig áttu þeir að sjá þessa bólu þar sem þeir svifu um í henni sjálfir?

En þótt starfsumhverfi fjölmiðlanna hafi borið öll merki ársins 2007 verður ekki annað séð af bók Ólafs Teits en þeir hafi fyrst og síðast verið sjálfum sér líkir þetta ár; mjög vinstri sinnaðir, óvinveittir Sjálfstæðisflokknum, sérlega andsnúnir hægri mönnum í Sjálfstæðisflokknum, hatursfullir í garð Bandaríkjanna og Ísrael, alltaf reiðubúnir að senda út nýjustu hrollvekjuna í umhverfismálum og dómgreindarlausir i eigin málum.

Það var þó ekki allt á sömu bókina lært. Eins og Ólafur Teitur hefur oft bent á í skrifum sínum um fjölmiðla er oft talað um „öfgahægrimenn“ í fréttum eða hófsama hægrimenn til að minna á að það eru til öfgasinnaðir óþokkar á hægrivængnum. Hins vegar heyrist nær aldrei rætt um öfgavinstrimenn í fréttum þótt vítt og breitt um heiminn séu ríki undir stjórn slíkra manna, Kína, Norður-Kórea, Kúba, Venesúela og Bólivía svo nokkur séu nefnd. Það bar þó til tíðinda árið 2007 að Fréttablaðið sagði í fyrirsögn frá „vinstriöfgahryðjuverkum“ í upprifjun sinni á verkum Baader-Meinhof samtakanna.

Nú er bara spurning hvort þessi tíðindi í sögu fjölmiðlunar á Íslandi hefðu orðið án þess að vikulega kæmu út nær þrír tugir tölublaða. Það er ekki víst að þessi nýbreytni hefði að öðrum kosti rúmast í blöðunum. Svo halda menn að árið 2007 skilji ekkert eftir sig.

Fjölmiðlar 2007 fást í Bóksölu Andríkis. Hún kostar aðeins kr. 1.990 komin heim í póstkassa á Íslandi. Sending til útlanda kostar kr. 600.